Afríkuríkið Gana hefur fengið lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) upp á einn milljarða punda, eða sem nemur ríflega 200 milljörðum króna, vegna efnahagserfiðleika sem landið glímir nú við. Ástæðuna fyrir erfiðleikunum má rekja til hratt fallandi verðs á mikilvægum útflutningsvörum landsins, þar á meðal kakóbaunum og olíu. Gull er einnig mikilvæg útflutningsvara í Gana, en áratugahefð er fyrir gullnámustarfsemi í landinu.
Eftir mikið hagvaxtarskeið, þar sem hagkerfið hefur vaxið um átta prósent á ári, er nú kominn mun meiri „kuldi“ í kerfið. Hagvaxtarspár hafa verið endurskoðaðar og er því nú spáð að hagvöxtur verði 4,2 prósent í landinu. Þessar miklu sviptingar hafa leitt til fjármagnsflótta frá landinu, og töldu stjórnvöld ráðlegt að kalla til Alþjóðagjaldeyrissjóðinn áður en staðan yrði verri, að því er fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Vonir standa til þess að hagkerfið rétti hratt úr kútnum, og að niðursveiflan verði skammvinn.