Jóns Atla Benediktssonar, nýkjörins rektors Háskóla Íslands, bíður ekki öfundsvert verkefni, miðað við stefnumálin sem hann setti á oddinn í kosningabaráttunni.
„Á síðustu árum hefur átt sér stað mikil uppbygging innan skólans. Rannsóknarvirkni hefur stóraukist, nemendum hefur fjölgað mikið og rannsóknarnámið hefur styrkst. Þetta hefur gerst þrátt fyrir sársaukafullan niðurskurð í kjölfar hrunsins. Mikilvægt er að halda sókninni áfram en jafnframt að læra af reynslu liðinna ára svo hægt sé að þjóna íslensku samfélagi sem best,“ skrifaði Jón Atli á kosningasíðu sína.
Þá hefur væntanlegur rektor sagt að eitt helsta verkefni nýs rektors verði að treysta fjármögnun háskólans, aukin fjárframlög til skólans séu forsenda áframhaldandi uppbyggingar, og að hann muni leita allra leiða til að bæta kjör og aðbúnað starfsfólks.
Þá sé mikilvægt að treysta rannsóknarinnviði háskólans, virða sérstöðu fræðigreina og efla nýliðun, og skólinn megi aldrei missa sjónar á því meginmarkmiði að þjóna nemendum sem best. Tryggja verði að nám við Háskóla Íslands standist ávallt alþjóðlegan samanburð og styðja þurfi við bakið á kennurum og tryggja góða kennsluhætti og námsaðstöðu fyrir nemendur.
Kjarninn óskar nýbökuðum rektor velfarnaðar í starfi. Miðað við blikur sem á lofti eru, virðist ekki veita af.