Bæjarstjórnir bæði Hafnarfjarðar og Garðabæjar hafa í vikunni samþykkt tillögur þess efnis að athugað verði hvort flýta megi vinnu frumdraga við svokallaða borgarlínuleið D, fjórðu lotu borgarlínuverkefnisins, sem tengja á saman Reykjavík og Hafnarfjörð. Tillögurnar komu frá fulltrúa Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og oddvita Garðabæjarlistans, sem er fulltrúi Viðreisnar innan þess framboðs.
Í tillögunum, sem eru nær samhljóða, segir að ýmsar framkvæmdir í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins séu á eftir á ætlun og því „gæti skapast rými til að horfa til annarra liða í sáttmála sem mætti ýta framar í tímalínu,“ en ekki stendur til að borgarlínuleið verði byrjuð að aka á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur fyrr en árið 2030 samkvæmt núverandi framkvæmdaáætlun verkefnisins.
Samkvæmt þeirri tímaáætlun borgarlínuverkefnisins sem sett var fram í frumdrögum að fyrstu lotu Borgarlínu er þó horft til þess að undirbúningsvinna við lotu 4 – leiðina á milli Fjarðar í Hafnarfirði og Miklubrautar, um Hamraborg og Kringlumýrarbraut, hefjist strax á þessu ári. Framkvæmdir geti svo hafist árið 2026.
„Við Sara Dögg [Svanhildardóttir] kollegi minn og bæjarfulltrúi okkar í Garðabæ lögðum þetta til,“ segir Jón Ingi Hákonarson bæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði í samtali við Kjarnann, en hann segist hafa fengið þau svör frá Vegagerðinni að líklega yrði ekki byrjað að vinna eiginleg frumdrög að leiðinni fyrr en um miðjan áratuginn.
„Með því að þrýsta á gerð frumdraga núna árið 2021 eða 2022 er hægt að byrja 4-5 árum fyrr á leið D (gefið að fjármagn fáist),“ segir í greinargerð með tillögunum tveimur.
„Besti Miðflokksmaðurinn“ studdi tillöguna í Hafnarfirði
Jón Ingi segir líflegar umræður hafa spunnist um tillöguna á bæjarstjórnarfundi í Hafnarfirði á miðvikudag og að endingu hafi allir bæjarfulltrúar lýst sig sammála því að leita til Betri samgangna ohf. og Vegagerðarinnar með þessa fyrirspurn.
„Það voru allir með, meira að segja Miðflokkurinn, sem er bara frábært,“ segir Jón Ingi, en þess skal getið að fulltrúi flokksins lét bóka að samþykki sitt væri með þeim fyrirvara að Borgarlínan væri of dýr leið og hægt væri að fara ódýrari leiðir. „Við erum með besta Miðflokksmanninn,“ segir Jón Ingi um Sigurð Þ. Ragnarsson félaga sinn í bæjarstjórn, sem margir þekkja sem veðurfréttamann.
„Það var ánægjulegt hvað fólk var sammála þessu og vildi sameinast um þetta. Það finnst mér frábært og segir manni það að borgarlínuverkefnið hefur miklu meiri stuðning en kannski virðist á yfirborðinu,“ segir Jón Ingi, sem lætur þess einnig getið að honum þyki ágætt að ekki séu allir sammála um verkefnið.
„Þá þurfum við bara að hafa meira fyrir því að rökstyðja okkar mál. Það er gott að hafa einhvern sem er málefnalega andsnúinn.“
Tækniskólinn breytir myndinni fyrir Hafnarfjörð
Jón Ingi segir að á frekar stuttum tíma hafi orðið töluvert miklar breytingar á mynstrinu í samfélaginu. „Allt í einu er stærsti framhaldsskóli landsins, Tækniskólinn, að öllum líkindum að koma í Hafnarfjörð og þá viljum við að Borgarlínan verði fyrr tilbúin þar heldur en ella,“ segir Jón Ingi við blaðamann.
Hann segir skipta máli að það liggi fyrir fyrr en seinna hvernig lega borgarlínuleiðanna verði útfærð og svo sé líka hægt að hafa frumdrögin klár, þannig að mögulega yrði hægt að byrja fyrr á framkvæmdahlutanum en áætlað er.
„Borgarlínan er skipulagsmál og hvernig við skipuleggjum íbúabyggð og hvernig við skipuleggjum þjónustu í kringum áhrifasvæði borgarlínunnar skiptir svo miklu máli,“ segir Jón Ingi.
Hefur fengið þau svör að tímalínur verkefna geti hnikast til
Sara Dögg Svanhildardóttir bæjarfulltrúi í Garðabæ segir við Kjarnann að það skipti máli að sveitarfélögin séu öll „á tánum“ gagnvart borgarlínuverkefninu. „Það er gríðarlega mikil ábyrgð falin í hverju sveitarfélagi fyrir sig á að koma þessu verkefni hratt og örugglega til framkvæmda,“ segir Sara Dögg.
Sara Dögg segir að hún hafi setið fundi með forsvarsmönnum Betri samgangna og Vegagerðar þar sem fram hafi komið að „hægt sé að hafa áhrif á tímalínuna“ innan samgöngusáttmálans ef upp komi seinkanir á öðrum framkvæmdum innan samgöngusáttmálans. Hún nefnir að framkvæmdir á borð við gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar séu á eftir áætlun og fleiri verkefni sömuleiðis.
Óviss með stokk á Hafnarfjarðarvegi
Hún segir að henni skiljist að forsenda þess að Garðabær sé með í borgarlínuverkefninu sé að Hafnarfjarðarvegur verði lagður í stokk þar sem hann sker sig í gegnum miðbæ Garðabæjar, en lýsir sjálf yfir efasemdum um þær fyrirætlanir.
Áætlunin byggi á tillögu frá 2016 og síðan þá hafi lítil umræða verið í pólitíkinni í Garðabæ um hvort stokkur sé eina leiðin. Framkvæmdin við stokkinn er ein af mörgum í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem sveitarfélögin og ríkið undirrituðu árið 2019.
„Ég hef talað við fólk sem telur að stokkur sé algjör óþarfi,“ segir Sara Dögg, sem segir að áhugavert væri að fá upp forsendurnar að baki lagningu umferðarstokksins, svo sem ábatamat og mat á umhverfisáhrifum út frá hávaða og öðru.
„Eftir því sem maður fer að garfa meira í þessu þá finnur maður að það skiptir miklu máli að sveitarfélögin séu að vakta verkefnið og halli sér ekki bara aftur og hugsi að verið sé að vinna verkið annars staðar,“ segir Sara Dögg.