Til stendur að leggja fram að nýju stjórnarfrumvarp innviðaráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, um leigubifreiðaakstur. Þetta er í fjórða sinn sem frumvarpið er lagt fram en það tekur í þetta sinn nokkrum breytingum. Málið gekk til umhverfis- og samgöngunefndar eftir fyrstu umræðu í þinginu og skilaði nefndin áliti með breytingartillögum þann 14. júní. Málið gekk á endanum ekki til annarrar umræðu og þar við sat. Frumvarpið sem nú hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda tekur tillit til nefndarálitsins og breytingartillögum nefndarinnar.
Skilyrði um starfsstöð hér á landi til að geta fengið útgefið rekstrar- eða starfsleyfi leigubifreiðastöðvar hér á landi hefur verið fellt brott úr frumvarpinu. Þar að auki verður hægt að veita bæði einstaklingum og lögaðilum rekstrarleyfi, nái frumvarpið fram að ganga.
„Sérstaklega er nú tekið fram að sé samið fyrir fram um gjald fyrir ekna ferð megi gjaldið vera ýmist áætlað eða endanlegt. Eftir sem áður skal verðskrá og þær forsendur sem umsamið gjald byggist á vera aðgengilegar viðskiptavini,“ segir á vef stjórnarráðsins um breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu. Líkt og í fyrri frumvörpum er kveðið á um að löggiltir gjaldmælar skuli vera í öllum leigubílum sem rukka gjald sem tekur mið af ekinni vegalengd eða þeim tíma sem ferðin tekur, nema ef ferð er seld fyrir fyrir fram umsamið áætlað eða endanlegt heildargjald.
Þurfa að fullnægja sömu skilyrðum og leigubifreiðastöðvar
Vonir standa til að farveitur á borð við Uber og Lyft muni geta haslað sér völl hér á landi, nái frumvarpið fram að ganga. Í drögunum segir: „Vonast er til að með afnámi fjöldatakmarkana á takmörkunarsvæðum og ítarlegra kvaða um nýtingu leyfis, auk undanþágu frá skyldu til að vera með gjaldmæli þegar þjónusta er seld gegn fyrir fram umsömdu föstu gjaldi, skapist skilyrði til að veita fjölbreyttari þjónustu með leigubifreiðum, þar á meðal þjónustu á borð við þá sem veitt er af þekktum farveitum erlendis.“
Til þess að svo megi verða þurfa farveiturnar engu að síður að fullnægja öllum skilyrðum sem leigubifreiðastöðvum er gert að fullnægja hér á landi. Til þess þurfa þær að hafa fyrirsvarsmann sem hefur lögheimili á evrópska efnahagssvæðinu, viðeigandi starfshæfni og gott orðspor. Þar að auki þurfa leigubifreiðastöðvar að hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu en það atriði er nánar skilgreint í reglugerð.
Með „sama hætti þurfa bílstjórar sem bjóða þjónustu sína hjá farveitum að uppfylla skilyrði leigubifreiðalöggjafarinnar og hafa gilt rekstrarleyfi og eftir atvikum atvinnuleyfi,“ segir í drögunum.
Stöðvarskylda og fjöldatakmarkanir munu heyra sögunni til
Ein af þeim breytingum sem boðuð er í frumvarpinu, líkt og í eldri gerðum þess, er afnám fjöldatakmarkana á leigubifreiðum. Eins og staðan er í dag eru takmörk sett á fjölda leigubílaleyfa á þremur takmörkunarsvæðum. Það fyrsta nær til höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, annað er á Akureyri og það þriðja í Árborg. Á þessum svæðum eru leigubílstjórar skyldugir til þess að starfa fyrir leigubifreiðastöð og takmörk eru sett á hversu margir leigubílar mega keyra á svæðunum. Til stendur að afnema bæði stöðvarskyldu og fjöldatakmörkunina en leigubílstjórum mun þó ekki verða meinað að aka fyrir tiltekna leigubifreiðastöð, nái frumvarpið fram að ganga.
Á vef stjórnarráðsins segir að markmið frumvarpsins sé „að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu, neytendum og þjónustuveitendum til hagsbóta. Þá er frumvarpinu ætlað að tryggja að íslenska ríkið uppfylli þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem það hefur undirgengist samkvæmt samningnum um evrópska efnahagssvæðið, auk þess að færa lög og reglur um leigubifreiðar til nútímalegra horfs með öruggar og tryggar samgöngur að leiðarljósi.“