Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra og núverandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, segir að það hafi verið mistök að veita Kaupþingi 500 milljón evra, um 80 milljarða króna, neyðarlagadaginn 6. október 2008. Því miður hafi ekki allt verið sem sýndist hjá bankanum og hann staðið veikar en látið var. Lánið hefði því aldei dugað til að bjarga bankanum og peningarnir ekki farið í það sem þeir áttu að fara. Þetta kom fram í viðtali við Geir í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Þar var Geir einnig spurður út í símtal milli síns og Davíðs Oddssonar, þáverandi formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, um lánveitinguna. Geir sagðist ekki vilja að upptakan verði birt af prinsipástæðum.
35 milljarða tap skattgreiðenda
Kjarninn greindi frá því í október að tap skattgreiðenda vegna lánveitingarinnar verði um 35 milljarðar króna.
Lánið hefur verið ítrekað til umfjöllunar í opinberri umræðu á undanförnum árum. Alþingi hefur í nokkur skipti reynt að komast til botns í því hvers vegna lánið var veitt, og hefur afrit af símtali Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde meðal þess sem borið hefur á góma. Þó símtalið hafi á sínum tíma verið tekið upp, og afrit af því til, þá hefur það ekki verið gert opinbert.
Lánið hefur einnig komið inn á borð yfirvalda sem rannsaka ýmis mál tengd hruni fjármálakerfisins. Í ákæruskjali embættis sérstaks saksóknara í máli hans gegn Hreiðari Má Sigurðssyni, Sigurði Einarssyni og Magnúsi Guðmundssyni vegna umboðssvika, sem birt var í byrjun maí 2014, kemur fram að þær lánveitingar sem embættið telur ólöglegar hafi meðal annars átt sér stað eftir veitingu Seðlabankans á 500 milljón evra láninu.