Geir H. Haarde, nýr sendiherra Íslands í Washington, afhenti Barack Obama Bandaríkjaforseta trúnaðarbréf sitt í Hvíta húsinu í gær. Þetta kemur fram á Facebook-síðu utanríkisráðuneytisins.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra skipaði Geir, sem er fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætis- og fjármálaráðherra, sem sendiherra í lok júlí í fyrra. Þá var greint frá því í lok september að hann yrði sendiherra í Washington, og hann tók við starfinu þar í byrjun árs af Guðmundi Árna Stefánssyni sem hafði verið sendiherra Íslands í Washington frá árinu 2011. Guðmundur Árni er kominn til starfa hjá alþjóða- og örygissskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
Á sama tíma og Geir var skipaður sendiherra var Árni Þór Sigurðsson, þáverandi þingmaður Vinstri grænna, einnig skipaður sendiherra. Samkvæmt frétt RÚV frá því í janúar átti Árni Þór að hefja störf í utanríkisráðuneytinu fyrst um sinn, og var þá sagt að ekkert hefði verið ákveðið um framhaldið hjá honum.