Starfsgreinasambandið (SGS) mun gera kröfu um að samið verði um krónutöluhækkanir á kauptaxta í komandi kjarasamningum, en viðræðunefnd SGS afhenti fulltrúum Samtökum atvinnulífsins kröfugerð sína, sem byggir á kröfugerðum 17 aðildarfélaga SGS, á fundi í morgun.
Vilhjálmur Birgisson formaður SGS segir í samtali við Kjarnann að ekki hafi verið lögð fram nein föst krónutala sem leggjast skuli ofan á lægstu kauptaxta í þeirri kröfugerð sem lögð var fram á fundinum í morgun.
„Í okkar kröfugerð nefndum við ekki neina fasta krónutölu, því það mun ráðast algjörlega af lengd samningsins, hvort við förum í skammtímasamning eða langtímasamning,“ segir Vilhjálmur og nefnir einnig að forsendur og aðstæður launafólks séu að breytast dag frá degi. Nægi að nefna vaxtahækkun Seðlabankans í dag í því samhengi – og erfitt sé að leggja fram fastsettar kröfur þegar sú er raunin.
Hann segir að fulltrúar SGS og SA hafi verið sammála um það á fundinum í morgun að það hefði tekist nokkuð vel til með núgildandi lífskjarasamningum, en með þeim var samið um krónutöluhækkanir sem nýttust þeim launalægstu best. Einnig var sérstakur hagvaxtarauki settur inn í samninginn og segir Vilhjálmur að hjá SGS satandi viljinn til þess að fara sambærilegar leiðir og gert var í kjarasamningsgerðinni 2019.
„Það kallar á að allir taki höndum saman,“ segir Vilhjálmur, sem segir þörf á sterkri aðkomu stjórnvalda og sveitarfélaga, auk þess sem reyna þurfi að skapa forsendur fyrir lágu vaxtastigi í landinu.
Vilhjálmur minnir á að stýrivextir hafi verið 4,25 prósent í aðdraganda þess að lífskjarasamningarnir voru undirritaðir árið 2019 og þá hafi samtök launafólks átt fundi með Seðlabankanum, til þess að fara yfir hvað verkalýðshreyfingin þyrfti að gera til að skapa forsendur fyrir lægri stýrivöxtum. Vaxtastigið hafi svo lækkað verulega í veirufaraldrinum, en Vilhjálmur segir að nú sé „allur þessi ávinningur farinn til baka“ og stýrivextir standi í 4,75 prósentum, sem séu „mikil vonbrigði“ fyrir launafólk.
Ásgeir sagði Seðlabankann ekki ætla að láta verðbólgu halda áfram
Á upplýsingafundi peningastefnunefndar í morgun, í kjölfar þess að stýrivextir voru hækkaðir upp í 4,75 prósent, sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að verðbólga, sem éti upp kauphækkanir, hlýti að vera versti óvinur vinnandi fólks. „Við teljum því að við séum að vinna í haginn fyrir næstu kjarasamninga. Og að við getum sýnt fram á það með trúverðugum hætti að við ætlum að ná niður verðbólgu með hörðum aðgerðum til þess að aðilar vinnumarkaðarins sjái það að það þurfi ekki að heimta launahækkanir fyrir framtíðarverðbólgu.“
Þess vegna skipti það máli þegar aðilar vinnumarkaðarins semji um laun á Íslandi að þeir geri sér grein fyrir því að Seðlabankinn sé ekki að fara að láta verðbólgu halda áfram. „Þegar þeir semja þá þarf ekki að fara fram á hækkanir til þess að halda raunlaunum stöðugum. Við teljum að við séum að búa í haginn fyrir næstu kjarasamninga og tryggja það að aðilar vinnumarkaðarins geti sest niður og samið um krónur sem hafi raunverulegt virði. Ekki krónur sem verði étnar niður af verðbólgu,“ sagði Ásgeir á fundinum í morgun.
Aðkoma stjórnvalda muni skipta miklu máli
Samkvæmt fréttatilkynningu frá SGS var rætt um fyrirkomulag komandi viðræðna og þau úrlausnarefni sem liggja fyrir samningsaðilum á fundinum í morgun. Gert er ráð fyrir að formlegar viðræður byrji um miðjan ágúst.
Í tilkynningu SGS segir að sambandið muni ekki una því að áhrif „vaxandi verðbólgu vegna aðgerðaleysis stjórnvalda í húsnæðismálum, og erlendra hækkana“ verði sett á herðar félagsmanna sambandsins.
„Samtök launafólks sömdu um það í síðustu samningum að auka ráðstöfunartekjur launafólks með heildstæðum hætti, með krónutöluhækkunum, vaxtalækkunum og aðgerðum af hálfu stjórnvalda. Aðstæður þær sem nú eru í samfélaginu og efnahagsumhverfinu kalla á svipaða aðferðafræði og víðtækt samstarf og samráð til að bregðast við miklum vanda á húsnæðismarkaði, tryggja kaupmátt og öfluga grunnþjónustu um land allt.
Nú eru uppi þær aðstæður í samfélaginu að aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum mun skipta miklu máli við gerð þeirra. Stóraukin verðbólga, miklar verðhækkanir og mikill vandi á húsnæðismarkaði kalla á að stjórnvöld og SA taki höndum saman við samtök launafólks til að tryggja kaupmátt, húsnæði fyrir alla og öfluga grunnþjónustu um land allt,“ segir í tilkynningu SGS.