Í spá Hagstofu Íslands, sem birtist í þjóðhagsspá í Hagtíðindum í dag, er m.a. gert ráð fyrir að landsframleiðsla aukist um 3,8% á þessu ári og 3,2% árið 2016.
Spáin nær til áranna 2015 til 2019.
Mikill vöxtur fjárfestingar og einkaneyslu drífur hagvöxt fyrstu tvö ár spátímans. Árið 2015 er spáð að landsframleiðslan aukist um 3,8%, einkaneysla um 3,8% og fjárfesting um 18,1%. Á árinu 2016 er gert ráð fyrir að landsframleiðslan aukist um 3,2%, einkaneysla um 3,3% og fjárfesting um 16,3%.
„Hagvöxtur er talinn verða 2,5 - 2,8% árlega frá 2017 til 2019 en á þeim tíma er reiknað með að einkaneysla aukist kringum 3% á ári og að dragi úr vexti fjárfestingar,“ segir í spá Hagstofu Íslands.
Samneysla er talinn aukast um 1,5 - 1,8% árlega 2015 - 2018 og lítið eitt meira árið 2019.
Verðbólga hefur verið lítil að undanförnu, „fyrst og fremst vegna styrkingar krónunnar og mikillar lækkunar olíuverðs“ segir í frétt frá Hagstofu Íslands. Reiknað er með að verðbólga verði 1,7% árið 2015 en aukist nokkuð á næstunni og hún verði um 3% árið 2016 en lækki í 2,5% í lok spátímans.
Flestir kjarasamningar eru lausir um þessar mundir og hægt gengur að semja, eins og greint hefur verið frá á vef Kjarnans. Breitt bil milli samningsaðila í kjaradeilunni veldur mikilli óvissu um launa og verðlagsþróun á næstunni, að því er segir í spá Hagstofu Íslands.