Mikill áhugi er á meðal asískra fjárfesta að kaupa hlut slitastjórnar Glitnis í Íslandsbanka, samkvæmt heimildum Kjarnans. Hópurinn sem sýnt hefur mestan áhuga er leiddur af aðilum í Hong Kong sem eiga hlut í mörgum fjármálafyrirtækjum víða um heim og hafa reynslu af fjármagnshöftum, sem eru við lýði á Íslandi. Fjárfestarnir vilja hins vegar ekki kaupa bankann nema með velþóknun íslenskra stjórnvalda. Auk þess þurfi ríkið að koma að sölunni, meðal annars til að útskýra hvers konar hömlur yrðu settar á arðgreiðslur bankanna til erlendra eigenda. Auk þess þarf að taka pólitíska afstöðu til þess hvort vilji sé til að selja íslenskan banka til slíkra fjárfesta. Slík aðkoma hefur ekki átt sér stað og því stendur málið fast.
Ef vilji er til og samstarf næst við íslensk stjórnvöld telja þeir sem að málinu koma að hægt yrði að ljúka slíkri sölu á níu mánuðum.
Einnig áhugi á Arion banka
Stærstu íslensku eignir þrotabúanna eru Íslandsbanki og Arion banki. Mikill vilji er innan slitastjórna þeirra að selja þá fyrir gjaldeyri. Þannig væri hægt að greiða út söluandvirðið til kröfuhafa án þess að það hefði áhrif á greiðslujöfnuð Íslands.
Erlendir aðilar hafa einnig lýst yfir áhuga á að kaupa hlut þrotabús Kaupþings í Arion banka. Formlegar viðræður eru ekki hafnar en samkvæmt heimildum Kjarnans er meðal annars um að ræða fjármálafyrirtæki í Skandinavíu. Slík sala yrði þó, líkt og í tilfelli Íslandsbanka, alltaf hluti af nauðasamningsuppgjöri og verður ekki að veruleika fyrr en fyrir liggur pólitísk ákvörðun um að heimila hana.
Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun Kjarnans um losun fjármagnshafta sem birtist í síðustu útgáfu hans.