Lifeyrissjóðirnir Gildi, Stapi og Festa keyptu átta prósent hlut í Vátryggingafélagi Íslands (VÍS) af Klakka, áður Exista, síðastliðinn mánudag. Kjarninn hefur undir höndum nýjan hluthafalista í félaginu þar sem þetta kemur fram. Ómögulegt hefur verið hingað til að fá staðfestingu á því hver kaupandi bréfanna var. Sjóðirnir þrír keyptu alls um 205 milljón hluti í VÍS í viðskiptunum. Miðað við gengi bréfanna í dag er virði þess hlutar um 1,7 milljarður króna. Hvorki Gildi né Festa áttu hluti í VÍS áður en viðskiptin fóru fram. Gildi er eftir þau fimmti stærsti eigandi VÍS.
Klakki ætlar að selja meira
Salan átti sér stað í byrjun viku og samkvæmt Klakka áttu viðskiptin „sér stuttan aðdraganda og voru framkvæmd í kjölfar tilboðs sem Klakka barst frá hópi fagfjárfesta“. Klakki, sem er að mestu í eigu Arion banka, þrotabús Kaupþings og vogunarsjóðinn Burlington Loan Management, stærsti erlendi kröfuhafi íslensks atvinnulífs, er áfram stærsti einstaki eigandi VÍS með 15,18 prósent eignarhlut.
Klakki skilgreinir sig ekki sem langtímafjárfesti í VÍS. Á heimasíðu félagsins kemur fram að það muni horfa til „þess að selja eftirstandandi eignarhlut sinn, mögulega í áföngum, á komandi mánuðum".
Á lista yfir 20 stærstu hluthafa VÍS kemur fram að tíu lífeyrissjóðir eigi samtals 33,6 prósent beina eign í félaginu. Auk þess eiga fagfjárfestasjóðir á vegum sjóðstýringarfyrirtækja 12,2 prósent í VÍS. Lífeyrissjóðir eru á meðal fjárfesta í að minnsta kosti hluta þeirra sjóða.