Lífeyrissjóðurinn Gildi hefur lagt fram breytingartillögu við tillögu stjórnar Símans um kaupréttaráætlun fyrir forstjóra, æðstu stjórnendur og lykilstarfsmenn félagsins. Í tillögunni er lagt til að nýtingarverð kaupréttarsamninga að ávinnslutíma liðnum verði leiðrétt með þriggja prósenta árlegum vöxtum ofan á áhættulausa vexti í stað fjögurra prósenta árlegra vaxta, líkt og stjórn Símans hafði lagt til.
Gildi er fjórði stærsti eigandi Símans með 8,12 prósent hlut. Fjárfestingafélagið Stoðir er stærsti eigandinn með 15,41 prósent hlut og forstjóri þess, Jón Sigurðsson, er stjórnarformaður Símans. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er næst stærsti eigandinn með 11,52 prósent eignarhlut og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) á samtals 13,67 prósent. Samanlagt eiga þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins því þriðjung í Símanum.
Engir kaupréttir nema hluthafar fái viðunandi arðsemi
Í greinargerð sem fylgir með breytingartillögu Gildis kemur fram að það skipti sjóðinn máli að umfang kerfisins sé viðeigandi. Á hinn bóginn telur sjóðurinn rétt að nýtingarverð kerfisins hækki meira en sem nemur fjögurra prósenta árlegum vöxtum og vill að nýtingarverð hækki sem nemur áhættulausum vöxtum til viðbótar við þriggja prósenta árlega vexti. „Þetta er lagt til í því skyni að tengja betur saman hagsmuni kaupréttarhafa og hluthafa með því að færa nýtingarverðið nær þeirri ávöxtunarkröfu sem gerð er til hlutabréfa. Það felur í sér að ekki sé forsenda til að umbuna stjórnendum með þessum hætti ef hluthafar fá ekki viðunandi arðsemi á sína fjárfestingu í félaginu.“
Erfiður tímapunktur til innleiðingar
Í lok greinargerðar sinnar vill Gildi benda á að núverandi markaðsaðstæður gætu „verið erfiður tímapunktur til innleiðingar á kaupréttarkerfum þannig að þau þjóni tilgangi sínum og tengi raunverulega saman langtímahagsmuni stjórnenda og hluthafa“. Þar er væntanlega vísað í það að hlutabréf hafa lækkað skarpt í virði hérlendis það sem af er ári, eða um 15,5 prósent. Hlutabréf í Símanum hafa lækkað um 6,6 prósent síðastliðinn mánuð.
Gildi segir að sjóðurinn telji eðlilegt, verði tillagan samþykkt, að tímapunktur úthlutunar og upphafsgengi verði „vandlega ígrundað af stjórn félagsins með hagsmuni félagsins, stjórnenda og hluthafa að leiðarljósi.“
Gildi var einn þeirra lífeyrissjóða sem lagðist gegn tillögu stjórnar um kaupauka- og kaupréttarkerfi hjá Icelandair Group á aðalfundi þess félags í síðustu viku. Sú tillaga var samþykkt með naumum meirihluta.