Tillögu stjórnar Símans, um að starfsfólk félagsins hljóti kauprétti að hlutabréfum félagsins samhliða skráningu þess á markað, verður breytt á þann veg að gildistími kaupréttar starfsmanna styttist úr fimm árum í þrjú ár. Kosið verður um tillöguna á hluthafafundi Símans klukkan þrjú í dag. Morgunblaðið greinir frá fyrirhuguðum breytingunum í dag.
Breytingar á fyrirkomulaginu eru gerðar í kjölfar athugasemda sex lífeyrissjóða um fyrri tillögu stjórnar Símans. Þá var lagt til að starfsmenn geti á næstu fimm árum tryggt sér hlutabréf fyrir allt að sex hundruð þúsund krónur árlega. Kaupgengi fyrir starfsmenn yrði hið sama og gengi hlutabréfa í síðustu viðskiptum, þegar lykilstjórnendur og fjárfestar keyptu fimm prósenta hlut í félaginu á gengingu 2,5 krónur á hlut. Þessu vildu lífeyrissjóðirnir, sem eru í eigendahópi félagsins, ekki una og gerðu alvarlegar athugasemdir. Lífeyrissjóðirnir töldu að með því að fastsetja verð í fimm ár fram í tímann þá gæti það leitt til þess að starfsmenn fái afhent hlutabréf undir markaðsverði og samhliða muni hlutir annarra hluthafa skerðast.
Eftir breytingarnar á kaupréttaráætlun starfsmanna niður í þrjú ár nemur virði hennar um 1,2 milljörðum króna, samanborið við um tvo milljarða áður, samkvæmt frétt Morgunblaðsins um málið.