Mál Ríkissaksóknara á hendur Gísla Frey Valdórssyni, fyrrverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, um meinta aðild hans að lekamálinu svokallaða, var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Við þingfestingu málsins lagði Ríkissaksóknari fram framhaldsákæru á hendur Gísla Frey þar sem tvær konur, sem minnst er á í umræddri samantekt innanríkisráðuneytisins um málefni hælisleitandans Tony Omos, krefjast samtals sjö milljóna króna í skaðabætur frá Gísla Frey.
Önnur konan, Fjóla Kristín Ólafardóttir, sem sögð var í sambandi við Tony Omos í samantekt innanríkisráðuneytisins, krefst 2,5 milljóna króna, og Evelyn Glory Joseph, sem sögð var mansalsfórnarlamb og væntanleg barnsmóðir Omos í samantektinni, krefst 4,5 milljóna króna. Þær telja sig hafa orðið fyrir misgjörð og miska þegar persónulegum upplýsingum um þær var lekið til fjölmiðla.
Við þingfestingu málsins í morgun lýsti Gísli Freyr sig saklausan af sakagiftum í lekamálinu, en hann er ákærður fyrir brot gegn þagnarskyldu í starfi sínu sem aðstoðarmaður innanríkisráðherra með því að láta fjölmiðlum í té umrædda samantekt. Gísli Freyr lagði jafnframt fram kröfu um frávísun málsins, við þingfestingu málsins í dag, og óskaði eftir að hún yrði tekin fyrir sem fyrst. Ákveðið var að taka frávísunarkröfuna fyrir þriðjudaginn 30. september. Í greinargerð Gísla var ekki tekin afstaða til framhaldsákæru ákæruvaldsins, þar sem hann vissi ekki af tilvist hennar fyrr en í gær.