Gísli Freyr Valdórsson, fyrrum aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, segir að hann hafi tvívegis hringt í Sigríði Björk Guðjónsdóttur, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, að morgni 20. nóvember í fyrra. Hún hafi hins vegar aldrei hringt í hann þennan morgun. „Ég man ekki hvað við ræddum, en við ræddum ekki Tony Omos,“ segir Gísli Freyr í samtali við Kjarnann.
Sama dag og Gísli ræddi við Sigríði Björk birtu Fréttablaðið og mbl.is fréttir sem byggðu á minnisblaði um hælisleitandann Tony Omos sem Gísli Freyr hefur viðurkennt að hafa lekið til fjölmiðlanna. Að sögn Gísla áttu símtölin við Sigríði Björk sér stað eftir að Fréttablaðið birti sína frétt um málið en áður en mbl.is birti sína frétt. Báðir fjölmiðlarnir voru hins vegar þegar búnir að fá minnisblaðið í sínar hendur þegar símtölin áttu sér stað.
Í DV í dag er sagt að Gísli Freyr og Sigríður hafi rætt þrívegis saman í síma að morgni 20. nóvember.
Er nú lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu
Sigríður Björk var á þessum tíma lögreglustjóri á Suðurnesjum. Hún var skipuð í starf lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins af Hönnu Birnu í júlí síðastliðnum án auglýsingar í kjölfar þess að fyrirrennari hennar, Stefán Eiríksson, sagði starfi sínu lausu. Í aðdraganda uppsagnar Stefáns hafði hann orðið fyrir ítrekuðum afskiptum af hendi innanríkisráðherra vegna rannsóknar á lekamálinu. Umboðsmaður Alþingis hefur haft samskipti Hönnu Birnu og Stefáns til skoðunar og er von á áliti hans um þau í þessari viku.
Gísli Freyr hefur játað að hafa lekið minnisblaði með upplýsingum um Tony Omos til Fréttablaðsins og mbl.is sem birtust í miðlunum þennan saman dag, 20. nóvember. Áður en minnisblaðinu var lekið var búið að bæta upplýsingum við það um Omos. Gísli Freyr var í síðustu viku dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir lekann.