Gjaldeyrisforði Seðlabankans um síðustu mánaðarmót var 604,5 milljarðar króna að stærð og lækkaði um 15,5 milljarða í mánuðinum. Enu að síður jókst hreinn gjaldeyrisforði, þ.e. erlendar eignir að frádregnum erlendum skuldum. Hreinn forði nam 447,6 milljörðum króna í lok ágúst samanborið við 407,9 milljarða króna í lok júlí.
Frá þessu greinir á vef Seðlabankans. Nettó útgreiðslur gjaldeyriseigna Seðlabankans og ríkissjóðs fyrir næstu tólf mánuði eru áætlaðar um 156,9 milljarðar króna.
Seðlabankinn hefur verið afar virkur á gjaldeyrismarkaði undanfarna mánuði og hefur keypt stóran hluta þess gjaldeyris sem streymt hefur til landsins, ekki síst með komu ferðamanna. Met hafa verið slegin í gjaldeyriskaupum og áætlaði greining Íslandsbanka í júlí síðastliðnum að hreinn gjaldeyrisforði verði þrisvar sinnum stærri í árslok en hann var í ársbyrjun.
Í nýlegri greiningu hagfræðideildar Landsbankans kom fram að kaup Seðlabankans á gjaldeyri í ágúst hafi nuið 319 milljónum evra. Hrein gjaldeyriskaup hans það sem af er ári er þannig orðin um 1,1 milljarður evra.
Ástæða fyrir lækkun vergs gjaldeyrisforða má rekja til endurgreiðslu erlendra skulda ríkissjóðs í byrjun ágúst, en þá keypti ríkissjóður eigin skuldabréf að nafnvirði 400 milljónir Bandaríkjadollara. Ríkissjóður notaði til þess innstæður sínar í erlendum gjaldeyri hjá Seðlabankanum og lækkar forðinn því sem þeim nemur.
Með miklum kaupum á gjaldeyri í því skyni að stækka óskuldsettan gjaldeyrisforða þá undirbýr Seðlabankinn sig fyrir aflandskrónuútboð sem halda á í haust, og er einn stórra þátta í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta.
Athugasemd ritstjórnar: Upphaflegri frétt hefur verið breytt en þar var „hreinn gjaldeyrisforði“, eins og hann er skilgreindur af Seðlabankanum sem erlendar eignir umfram erlendar skuldir, kallaður „óskuldsettur forði“. Því hefur verið breytt í kjölfar athugasemda.