Gengi rúblunnar rússnesku hefur haldið áfram að falla í dag. Gagnvart Bandaríkjadal hefur rúblan fallið um tæplega 30 prósent, einungis í dag, og virðist sem stýrivaxtahækkun Seðlabanka Rússlands í gær, um 10,5 í 17, hafi engu breytt en yfirlýstur tilgangur hækkunarinnar var að vinna á móti falli rúblunnar.
Þá hefur gengi norsku krónunnar fallið svo til stjórnlaust í dag, um sex prósent gagnvart þeirri íslensku þegar þetta er skrifað, og segir stærsti viðskiptafréttavefur Noregs, www.dn.no, að norska krónan hafi „algjörlega hrunið“ í dag.
Hrun gjaldmiðlanna er meðal annars rakið til gríðarlegas verðfalls á olíu en hún fór í dag í fyrsta skipti frá því í byrjun árs 2009 í undir 60 Bandaríkjadali á fatið. Frá því júlí hefur olía fallið í verði á heimsmörkuðum um meira en 40 prósent. Olíugeirinn er grunnatvinnuvegurinn í Noregi, og Rússlandi sömuleiðis.
Fréttin verður uppfærð eftir því sem frekari upplýsingar berast um þróun mála.