Tækjamál Landspítalans eru loks að komast í gott horf að nýju og að undanförnu hefur hann getað bætt við sig nýjum og spennandi tækjum fyrir gjafarfé sem auka á velferð allra Íslendinga, í stað þess að nota það fé til að halda í horfinu. RÚV greindi frá því í fyrradag að gjafir til spítalans frá fyrirtækjum og einstaklingum haf aldrei verið meiri en akkurat í ár. Á meðal þess sem hann hefur fengið í ár er til að mynda vilyrði fyrir kaupum á jáeindarskanna frá Íslenskri erfðagreiningu sem kostar um 800 milljónir króna.
Fyrirtæki hafa ýmiskonar hag af því að gefa til tækjakaupa á Landspítalanum. Starfsemi hans er mjög óumdeild og því gott fyrir vörumerki að tengjast spítalanum. Auk þess má ekki vanmeta vilja þeirra til að sýna samfélagslega ábyrgð í verki.
Eitt þeirra fyrirtækja sem undanfarið hefur látið gott af sér leiða með gjöf til Landspítalans er Mjólkursamsalan (MS). Hún tilkynnti í vikunni að annað árið í röð verði blásið til söfnunar á nýjum tækjabúnaði fyrir Landspítalann með því að láta 30 krónur af hverjum seldum lítra af D-vítamínbættri léttmjólk renna til þessa. Í fyrra skilaði þetta átak Landspítalanum 15 milljónum króna.
Þótt að allir styrkir til tækjakaupa á Landspítalanum séu góðra gjalda verðir hafa margir eðlilega sett spurningu við þessa vegferð MS. Fyrirtækið er nefnilega með lögvarða einokunarstöðu á markaði og íslenskir skattgreiðendur, sem borga fyrir rekstur Landspítalans, niðurgreiða mjólkurframleiðslu um rúma 6,5 milljarða króna á ári.
Því má líta svo á að gjöf MS sé tilfærsla á fé skattgreiðenda úr einum vasa í annan.