Útflutningsverðmæti sjávar- og álafurða á fyrstu níu mánuðum ársins jókst um 17 prósent miðað við sama tímabil í fyrra og hefur ekki verið jafnhátt á síðustu tíu árum. Seðlabankinn býst við áframhaldandi vexti, í ljósi mikilla aflaheimilda á loðnu og hás álverðs.
Samkvæmt tölum Hagstofu nam útflutningsverðmæti sjávarafurða frá janúar og út september alls 213 milljörðum króna, en það var átta prósentum meira verðmæti heldur en á sama tíma í fyrra. Útflutningsverðmæti álafurða nam aftur á móti 195 milljörðum króna á tímabilinu, sem er um 30 prósentum meira en útflutningsverðmæti þeirra á fyrstu níu mánuðum síðasta árs.
Útflutningur beggja vöruflokka hefur ekki verið jafn verðmætur í að minnsta kosti tíu ár, líkt og sjá má á mynd hér að neðan.
Loðnan og hagstætt álverð
Samkvæmt nýjasta hefti Peningamála Seðlabankans má rekja aukinn útflutning sjávarafurða til verðmætrar loðnuvertíðar í vor. Eftir það hafi útflutningurinn þó aðeins dregist saman.
Álútflutningur hafi hins vegar tekið við sér á síðasta ársfjórðungi eftir því sem heimsmarkaðsverð þess stórjókst.
Bankinn verðhækkunina á áli skýrast einkum af minni álframleiðslu í Kína vegna rbeyttrar stefnu þarlendra stjórnvalda í umhverfismálum sem hefur leitt til samdráttar í framboði orku til stóriðjuframleiðslu. Einnig hafi framleiðsla á áli dregist saman á Indlandi sakir skorts á kolum og í Brasilíu vegna minni afkasta vatnsaflsvirkjana. Þar að auki hafi framboðshnökrar leitt til þess að súrál, sem er notað í álframleiðslu, hafi hækkað töluvert í verði.
Búist er við að útflutningsverð áls frá Íslandi verði 43 prósentum hærra í ár en það var í fyrra. Þá er einnig búist við nærri 16 prósenta verðhækkun á næsta ári.
Bjartari horfur
Seðlabankinn segir að horfur um vöruútflutning á þessu og næsta ári hafa batnað frá síðustu spá þess í ágúst, en nú sé gert ráð fyrir 7,6 prósenta vexti á milli ára. Aukningin er bæði vegna bjartari horfa í útflutningi sjávarafurða í ljósi aukinna aflaheimilda á loðnu og væntingar um meiri útflutning álafurða.