Meirihluti verðbólgunnar í byrjun síðasta árs var vegna verðhækkana á matvöru, bílum tómstundum og raftækjum. Eftir því sem árið leið dró hins vegar úr vægi þessara vöruflokka, á meðan bensín og húsnæði hækkuðu hratt í verði. Þetta kemur fram þegar undirvísitölur neysluverðsvísitölunnar eru skoðaðar hjá Hagstofu.
Faraldursvörur hækkuðu í verði
Samkvæmt undirvísitölunum hækkaði verðið á ýmsum vörum sem eftirspurnin jókst eftir í kjölfar faraldursins á vormánuðum 2020. Þessar verðhækkanir héldu svo áfram út árið og fram í apríl 2021.
Þar má helst nefna matvöru, sams konar hækkanir áttu sér einnig stað hjá húsgögnum og heimilistækjum, sér í lagi raftækjum, á sama tímabili. Bílar hækkuðu einnig talsvert í verði, auk þess sem verðið á ýmiss konar tómstundir og menningarviðburði jókst líka. Alls voru 57 prósent verðbólgunnar í janúar í fyrra vegna verðhækkana í öllum þessum flokkum.
Líkt og sjá má á mynd hér að ofan dró hins vegar nokkuð úr þessum verðhækkunum eftir aprílmánuð. Á sama tíma hækkaði svo verðið á bensíni, en það hafði lækkað nokkuð eftir að faraldurinn kom til landsins.
Mest jókst þó vægi húsnæðis í neysluverðsvísitölunni, samhliða hröðum verðhækkunum á fasteignamarkaði. Samhliða því hækkaði einnig verðið á viðhaldi og viðgerðum á húsnæði, en vægi beggja þessara vöruflokka jókst með hverjum mánuðinum eftir það.