Flestir hafa glugga fyrir augum daglega, horfa út um þá, eða inn, virða þá fyrir sér úr fjarlægð. Flestum finnst það aum vistarvera þar sem ekki er einhver gluggabora (kannski að Bakkabræðrum undanskildum) . Gluggarnir eru sem sé mikilvægur þáttur í daglegu lífi nútímafólks þótt ekki hafi þótt ástæða til að byggja yfir þá sérstakt safn fyrr en nú. Á nýju gluggasafni í Söborg, norðan við Kaupmannahöfn eru 300 gluggar til sýnis.
Það var árið 2006 sem maður að nafni Lars Kann-Rasmussen ákvað að koma upp gluggasafni. Stundum er sagt að skylt sé skeggið hökunni og það á sannarlega við í þessu tilviki. Lars þessi Rasmussen, sem nú er 76 ára, var um árabil framkvæmdastjóri Velux fyrirtækisins, sem er mjög þekkt fyrirtæki í "gluggaheiminum". Faðir hans, Villum Rasmussen, var byggingaverkfræðingur og hafði, að eigin sögn, oft velt því fyrir sér hvernig á því stæði að háaloft (sem bæði eru mörg og stór í Danmörku) væru svo lítið notuð. Hann komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri vegna þess að á dönskum háaloftum væri sama ástandið og forðum hjá bræðrunum á Bakka, gluggana vantaði. Hann lét ekki þar við sitja heldur stofnaði árið 1941 fyrirtæki gagngert til að smíða glugga fyrir ofanljós (þakglugga). Ári síðar var gluggasmiðjan skírð Velux.
Með glugga á heilanum
Villum Rasmussen (1909 -1993) var hugmyndaríkur og fékk samtals 55 einkaleyfi sem flest eða öll tengdust gluggum. Fyrsta einkaleyfið var útbúnaður sem gerði kleyft að velta við opnanlega hluta gluggans, til þess að auðvelda þrifin. Hann sagði einhverju sinni í viðtali að hann væri með glugga á heilanum og sér þætti það bara allt í lagi. "Þegar maður hugsar svona mikið um eitthvað, eins og til dæmis glugga, fær maður alls kyns hugmyndir, sumar snjallar aðrar ekki," sagði Villum Rasmussen í þessu sama viðtali.
Það var árið 2006 sem maður að nafni Lars Kann-Rasmussen ákvað að koma upp gluggasafni. MYND: villumwindowcollection.com
Sonurinn stofnaði gluggasafn
Hér verður ekki rakin saga þessa fyrirtækis sem nú er 74 ára gamalt. Starfsmennirnir voru í upphafi örfáir, fjórir eða fimm, en eru í dag rúmlega tíu þúsund. Í Danmörku eru starfsmenn tvö þúsund og sex hundruð en starfsemin fer fram í fjölmörgum löndum víða um heim.
Þótt Villum Rasmussen dytti margt í hug hvarflaði þó aldrei að honum að gluggar ættu sérstakt erindi á safn. Sonurinn Lars hafði fyrir um það bil tuttugu árum, skömmu eftir dauða föður síns, fengið þá hugmynd að koma upp sérstöku gluggasafni. Það var þó ekki fyrr en árið 2006 að ákvörðunin um safnið var tekin og þá var hafist handa við að safna gluggum. Lars vildi að safnið yrði alþjóðlegt en ekki "eitthvert Velux safn" eins og hann orðaði það. Hann lagði líka mikla áherslu á að safnið myndi eignast (eða fá að láni) sem fjölbreyttast úrval glugga, bæði hvað varðaði tíma og staði. Það reyndist bæði flókið og tímafrekt að afla sýningargripanna, oftar en ekki hefur það nefnilega orðið hlutskipti glugga að enda á haugunum, eða sem eldiviður, þegar hús hafa verið rifin eða endurbyggð.
Elstu gluggarnir frá því um 1600
Gluggasafnið í Söborg var opnað 15. apríl síðastliðinn. Þar eru til sýnis um það bil þrjú hundruð gluggar, þeir elstu frá því um 1600, þeir yngstu frá þessu ári. Sumir eru sýndir í veggjum, eins og þeim þar sem þeir voru upphaflega, aðrir standa á gólfi eða bara einir og sér, enn aðrir hanga niður úr loftinu. Suma er hægt að opna og þessir sýningargripir eru ólíkir mörgum öðrum að þarna má snerta.
Á safninu er einskonar tímagangur þar sem hægt er að ferðast um tímann og fylgja þannig breytingum sem orðið hafa í áranna og aldanna rás. Sagt er frá útlitsbreytingum, gömlum og nýjum efnivið sem notaður hefur verið í glugga og tískusveiflum í gluggagerð. Þegar safnið var opnað greindi stofnandinn, Lars Rasmussen, frá því að þessir þrjú hundruð gluggar sem nú eru í safninu væru aðeins byrjunin. "Stefnum á þúsund" sagði hann.
Á dönsku heitir gluggi vindue, á ensku window. Þessi orð eru dregin af gömlu norrænu orði sem við Íslendingar þekkjum vel en notum í annarri merkingu. Nefnilega vindauga.