Saksóknari kynnti ný gögn fyrir verjanda Gísla Freys Valdórssonar í fyrradag sem hann telur að sanni að Gísli Freyr hafi átt við minnisblað um hælisleitendur sem lak til Fréttablaðsins og mbl.is í nóvember 2013. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag og er staðfest af Helga Magnúsi Gunnarssyni, saksóknara.
Gísli Freyr Valdórsson játaði í gær að hafa lekið skjali úr ráðuneytinu varðandi hælisleitandur, meðal annars Tony Omos, til Fréttablaðsins og mbl.is í nóvember 2013. Gísli Freyr var þá aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, Hann hefur verið ákærður fyrir lekann og aðalmeðferð í málinu fer fram í dag. Vegna játningar Gísla Freys munu vitni ekki verða kölluð fyrir, en meðal þeirra sem áttu að bera vitni er Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Gísli Freyr og Hanna Birna sendu bæði frá sér yfirlýsingar vegna málsins í gær. Gísli Freyr var auk þess gestur Kastljóss á RÚV þar sem hann fór yfir játningu sína.