Á allan hátt væri eðlilegra og farsælla að tryggja öruggt samband Seyðisfjarðar við þjóðvegakerfið með því að ráðast í gerð tvennra jarðganga milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar og Mjóafjarðar og Norðfjarðar áður en göng verða gerð um Fjarðarheiði.
Þetta er mat Samgöngufélagsins, félags sem hefur það að markmiði að stuðla að framförum í samgöngum á Íslandi. Félagið hefur í gegnum árin sett fram ýmsar tillögur og hvatt til umræðu, fræðslu og skoðanaskipta um samgöngumál.
Fjarðarheiðargöng, sem eru langt á veg komin í umhverfismati, yrðu ekki aðeins lengstu veggöng á Íslandi heldur með þeim lengstu í heimi. Kostnaðurinn yrði á bilinu 44-47 milljarðar króna, segir í umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar sem auglýst var til umsagnar hjá Skipulagsstofnun í sumar. Samgöngufélagið var meðal þeirra sem skiluðu umsögn um áformin.
Félagið telur að með göngum milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar yrði nánast alltaf fær leið til og frá Seyðisfirði. Á Norðfirði er m.a. sjúkrahús fjórðungsins og myndi leiðin fyrir Seyðfirðinga á sjúkrahúsið styttast um 30 kílómetra með tvennum göngum.
Ýmiss annar ávinningur myndi skapast með göngum þá leiðina sem ekki fengist með Fjarðarheiðargöngum, m.a. hringtenging sem myndi gera ferðir ferðamanna mun áhugaverðari sem og auknir möguleikar í samvinnu milli sveitarfélaganna á Miðausturlandi. Ávinningurinn í styttri ferðatíma yrði ekki síst hjá Norðfirðingum því með göngum til Seyðisfjarðar myndi vegalengdin til Egilsstaða styttast úr 68 kílómetrum í 55 km.
Samgöngufélagið telur að nokkuð mikið hafi verið gert úr vetrarófærð á Fjarðarheiði í skýrslu frá árinu 2019 sem ákvörðun um að ráðast í Fjarðarheiðargöng var byggð á. Þá bendir félagið á að í skoðanakönnun sem Gallup vann að beiðni þess árið 2020 meðal íbúa á Miðausturlandi hafi komið fram að flestir íbúar eða 42,4 prósent, nefndu göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar sem vænlegasta fyrsta kost. 37,9 prósent nefndu Fjarðarheiðargöng sem fyrsta kost.
Afdrifarík og dýr ákvörðun
Ekki er að mati félagsins fullnægjandi rökstuðningur fyrir þeirri „afdrifaríku ákvörðun“ að leggja til að ráðast í Fjarðarheiðargöng, sem yrðu 13 kílómetrar á lengd, sem fyrsta kost í stað þess að gera göng úr Seyðisfirði í Mjóafjörð (5,5 km) og þaðan upp á Hérað (9 km) eða til Norðfjarðar (6,8 km).
„Áætlaður kostnaður við að fullgera Fjarðarheiðargöng ásamt aðliggjandi vegum er nú áætlaður 45.000 milljónir króna (45 milljarðar króna) og er þó talsverð óvissa hvort sú áætlun standist þegar til kastanna kemur,“ segir í umsögn Samgöngufélagsins og bent er á hækkun kostnaðar við Vaðlaheiðargöng miðað við áætlanir í því sambandi.
„Verður að teljast hæpið að forsvaranlegt sé að ráðast í gerð mannvirkis sem þessa, sem raunar er áætlað að taki sjö ár að fullgera, eins og fjármálum ríkissjóðs er komið,“ skrifar félagið. „Þótt brýnt verði að teljast fyrir samfélagið á Seyðisfirði að rjúfa vetrareinangrun staðarins og tryggja akleiðir sem fullnægja núgildandi kröfum er vel hægt að fara aðra leið en stystu leið milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða.“
Samgöngufélagið telur þá hugmynd að fjármagna göngin að hluta með innheimtu veggjalda í göngunum sem og öðrum jarðgöngum á landinu, tæpast ganga upp. Hvalfjarðargöng, þau fjölförnustu í þjóðvegakerfinu, hafi þegar verið greidd upp með veggjöldum og gjaldtaka sé nú þegar í þeim næst fjölförnustu, Vaðlaheiðargöngum sem renna á til kostnaðar við gerð þeirra. Hæpið sé að leggja gjald á umferð um Strákagöng, Múlagöng og göng undir Breiðadals- og Botnsheiðar, þar sem um einbreið göng er að ræða að hluta eða heild og þau uppfylla þar af leiðandi ekki kröfur dagsins í dag. Þá séu aðeins fimm göng eftir; Dýrafjarðargöng, Bolungarvíkurgöng, Héðinsfjarðargöng, Norðfjarðargöng og Fáskrúðsfjarðargöng. „Sú umferð sem fer um þau stendur vart undir miklum tekjum og fæli þá jafnframt í sér þá „nýbreytni“ að greiða þyrfti sérstakt gjald fyrri akstur um hluta þjóðvegakerfis landsins án þess að eiga kost á annarri leið.“
Samgöngufélagið telur út af öllum framangreindum þáttum og fleiri sem það tínir til í umsögn sinni að forsendur fyrir gerð Fjarðarheiðarganga séu um margt byggðar á veikum grunni og ekki þykir forsvaranlegt að ráðast í útboð og framkvæmdir nema fyrir liggi með ótvíræðum hætti hvernig að gjaldtöku verði staðið, fjárhæð gjalds, tímalengd gjaldtökur og fleira. Mun hyggilegra sé að ráðast nú þegar í undirbúning ganga milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar sem gætu engu að síður verið tilbúin tveimur árum fyrr en Fjarðarheiðargöng. „Að gerð þeirra lokinni mætti síðan kanna hentugustu leið milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða.“
Hér getur þú lesið fréttaskýringu Kjarnans um Fjarðarheiðargöng.