Bandaríska fyrirtækið Google, eitt stærsta tæknifyrirtæki heims, mun héðan í frá heita Alphabet. Larry Page, annar stofnenda Google sem upphaflega var leitarvél en rekur í dag miklu víðtækari starfsemi, tilkynnti um veigamiklar breytingar á uppbyggingu félagsins eftir lokun markaða í Bandaríkjunum í dag. Það gerði hann á bloggsíðu Google. Starfsemi Google verður með þessu móti brotin niður í smærri einingar undir móðurfélaginu Alphabet.
BREAKING: Google creates new company called Alphabet, restructures stock http://t.co/6cBqmhe2Kg
— Bloomberg Business (@business) August 10, 2015
Bandarískir fjölmiðlar greina frá áformum stjórnenda félagsins í dag. Í pistli á bloggsíðu Google, og lesa má hér, útskýrir Larry Page að hann verði forstjóri nýja eignarhaldsfélagsins og Sergey Brin, hinn stofnandi Google, verði forseti þess. Þeir vonast til að breytt skipulag gefi þeim frelsi til að sækja fram í tækninýjungum. Page segir að þeir muni nýta krafta sína í framtíðarverkefni og hvar sem þeirra er þörf hverju sinni.
Page útskýrir Alphabet sem samansafn fyrirtækja. Þeirra stærst verður Google með leitarvélina, Maps kortið, Android stýrikerfið, Youtube og fleira innanborðs. Þá verður tækniþróunarfélagið X Lab rekið sem sérstök eining undir Alphabet en félagið hefur til þessa kallast Google X og meðal annars þróað sjálfkeyrandi bíla. Í póstinum tiltekur Page sérstaklega þróun X Lab á drónum. Fjárfestingasjóðirnir Venture og Capital verða reknir sem sérstök dótturfélög Alphabet.
Greint var frá breytingunum skömmu eftir lokun markaða í Bandaríkjunum í dag, eða skömmu fyrir klukkan 21 að íslenskum tíma. Hlutabréf í Google, sem nú heitir reyndar Alphabet, hafa rokið upp á eftirmarkaði.
Google shares are spiking after hours on news of corporate restructuring. http://t.co/XG6T8Y5xnM pic.twitter.com/seZhLnw69H
— Bloomberg Markets (@markets) August 10, 2015