Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, opnaði formlega nýja skrifstofu Norðurlandaráðs í Masdar-borg í Abu Dhabi á dögunum, það er frumkvöðlasetur fyrir græn tæknifyrirtæki á Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Nordic Innovation sem rekur skrifstofuna.
Í frumkvöðlasetrinu fá fyrirtækin aðstöðu, aðgang að Norrænu tengslaneti og njóta þeirra fríðinda sem bjóðast á fríverslunarsvæði Masdar-borgar. Skrifstofan er ætluð grænum tæknifyrirtækjum á Norðurlöndunum sem hyggja á landvinninga í Mið-Austurlöndum, sem og þeim fyrirtækjum sem nú þegar hafa gert strandhögg í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og við Persaflóa.
Samkvæmt fréttatilkynningunni hafa nú þegar þó nokkur græn tæknifyrirtæki lýst yfir áhuga sínum á að leigja skrifstofur í frumkvöðlasetri Norðurlandaráðs í Masdar-borg. Skrifstofur eru leigðar út bæði til lengri og skamms tíma og leiguverðinu er stillt í hóf svo smærri fyrirtæki hafi efni á að leita þangað eftir húsnæði.
Í ræðu sinni við opnun frumkvöðlasetursins, sagði forseti Íslands að græn tækni væri einn helsti styrkleiki fyrirtækja á Norðurlöndunum og hann vonist til að tæknifyrirtækin sjái hag sinn í því að nýta sér frumkvöðlasetur Norðurlandaráðs í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þá hafi íslenska fyrirtækið Reykjavík Geothermal og Nýsköpunarmiðstöð Íslands nú þegar fundið samstarfsaðila í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, sem renni stoðum undir að spennandi markaður í Mið-Austurlöndum sé sannarlega til staðar.