Reykjanesbær á nú í viðræðum við kröfuhafa um endurskipulagningu skulda sinna, en ef þær viðræður skila ekki árangri getur komið til greiðslufalls hjá bænum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bænum.
„Eins og fram hefur komið í tilkynningum Reykjanesbæjar er fjárhagsstaða bæjarfélagsins alvarleg. Bæjaryfirvöld eiga í viðræðum við kröfuhafa um endurskipulagningu skuldbindinga bæjarfélagsins. Stefnt er að því að niðurstaða þeirra viðræðna liggi fyrir á næstu vikum. Ef viðræðurnar skila ekki árangri getur komið til greiðslufalls á skuldbindingum bæjarfélagsins í framtíðinni,“segir í tilkynningu bæjarfélagsins.
Bærinn hefur verið í miklum vanda um langt skeið. Reykjanesbær er skuldsettasta sveitarfélag landsins. Skuldir þess, rúmir 40 milljarðar króna, eru um 250 prósent af reglulegum tekjum. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2012 þá er leyfilegt skuldahlutfall að hámarki 150 prósent. Skuldastaða Reykjanesbæjar er því beinleiðis í andstöðu við lög.
Um síðustu áramót var fengin heimild til að leggja aukaálag ofan á hámarksútsvar hjá bænum, sem þýðir að íbúar Reykjanesbæjar þurfa að greiða hærri skatta til sveitarfélagsins en nokkurt annað sveitarfélag á landinu vegna afleitrar fjárhagsstöðu. Þeir borga 15,05 prósent á meðan að hámarksútsvar samkvæmt lögum er 14,52 prósent.
Til viðbótar hefur fasteignaskattur verið hækkaður, fastri yfirvinnu bæjarstarfsmanna sagt upp, föstum ökutækjastyrkjum þeirra sagt upp, fagsviðum fækkað, öllum framkvæmdastjórum sveitarfélagsins sagt upp.
Þörf á sársaukafullum aðgerðum
Ný bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ fengu KPMG til að gera óháða úttekt á fjármálum sveitarfélagsins eftir að þau tóku við stjórn bæjarins. Á grunni þeirrar úttekar var ný aðgerðaráætlun til átta ára kynnt til sögunnar, en henni er ætlað að ná skuldahlutfallinu niður fyrir 150 prósent fyrir árið 2021. Kjarninn skrifaði ítarlega um þessi mál nýlega, en þau skrif má lesa hér.
Í fyrsta lagi þarf að auka framlegð að lágmarki um 900 milljónir króna með aðgerðum í rekstri. Það þýðir auknar tekjur, til dæmis í gegnum þjónustugjöld og hækkun á útsvari, og lækkun rekstrarkostnaðar, til dæmis með uppsögnum á starfsfólki.
Í öðru lagi á að stöðva fjárflæði frá A-hluta sveitarsjóðs yfir til starfsemi sem tilheyrir B-hluta. Með öðrum orðum á að hætta að nota tekjur sveitafélagsins, lántökur eða eignasölur til að borga fyrir þann hluta sem tilheyrir B-hluta sveitasjóðs. Í þessu felst meðal annars að HS Veitur verði látnar greiða hámarksarð, um 900 milljónir króna á ári.
Í þriðja lagi á að takmarka fjárfestingar A-hluta sveitarfélagsins við 200 milljónir króna á ári þar til fjárhagsmarkmiðum verður náð.
Í fjórða lagi á að mæta aukinni greiðslurbyrði næstu ára með endurfjármögnun skulda og skuldbinda og skoða möguleika á frekari sölu eigna eða sameiningu B-hluta stofnana. Þær B-hluta stofnanir sem eru mest byrði á Reykjanesbæ eru Reykjaneshöfn og Fasteignir Reykjanesbæjar. Hvorug þeirra getur rekið sig án peninga frá A-hluta sveitasjóðsins eins og staðan er í dag.