Kostnaður við greiðslumiðlun er tæplega þrisvar sinnum hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Enn fremur hefur Ísland dregist verulega aftur úr öðrum þjóðum þegar kemur að þróun greiðslumiðlunar frá fjármálahruninu árið 2008, en möguleg upptaka svokallaðrar rafkrónu gæti bætt úr því. Þetta kemur fram í nýlegri greiningu eftir Guðmundur Kr. Tómasson sem situr í fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands.
Guðmundur er annar viðmælandi í þáttaröðinni Ekon, þar sem hagfræðingurinn Emil Dagsson fær til sín sérfræðinga úr ýmsum áttum til að fjalla um hagfræðileg málefni ásamt málefnum tengdum íslenskum efnahag. Þáttinn má sjá í spilaranum hér að neðan, auk þess sem hlusta má á hann í Hlaðvarpi Kjarnans.
Hefur orðið öruggari og ódýrari
Samkvæmt Guðmundi hefur þróun greiðslumiðlunar síðustu ára gert greiðslukerfi öruggari og ódýrari víða erlendis. Í því samhengi megi nefna aukna áherslu á greiðslum á milli bankareikninga án milliliða (e. Account-to-account), en þær eru notaðar víða á hinum Norðurlöndunum. Einnig hafa ýmis lönd, t.a.m. Noregur og Danmörk, komið á legg sínum eigin greiðslukortum sem lækkar kostnað.
Á sama tíma hefur orðið aukning á notkun greiðsluforrita sem tengjast kreditkortum á Íslandi, en hún er frekar til þess fallin að auka kostnað við greiðslumiðlun. Einnig eru ekki til sérstök greiðslukort fyrir Íslendinga, en samkvæmt Guðmundi gæti þó verið að sú leið henti ekki hér þar sem kortainnviðir gætu verið að deyja út.
Miðlunin gæti bæst með útgáfu rafkrónu
Guðmundur telur leið Íslendinga til að gera greiðslumiðlun ódýrari og öruggari geta falist í útgáfu á rafkrónu. Önnur lönd á borð við Svíþjóð eru komin vel á veg með vinnu á slíkri lausn þó engin formleg ákvörðun hafi verið tekin þar í landi. Hann útskýrir að slíkur rafeyrir sé frábrugðinn öðrum rafmyntum á borð við Bitcoin á þann veg að Seðlabankinn sé þá ábyrgur fyrir útgáfu og sinni reglulegu eftirliti rafeyrisins.
Samkvæmt Guðmundi yrði rafkrónan þá í raun rafrænt reiðufé sem hægt væri að nota, t.d. úr rafveski í síma, til að kaupa vörur og þjónustu beint og milliliðalaust. Hann segir engan geira í bankakerfinu vera með álíka þróun og dýnamík í dag og greiðslumiðlun.
Guðmundur starfaði sem framkvæmdastjóri á sviði fjármálastöðugleika og greiðslumiðlunar hjá Seðlabanka Íslands allt frá 2005 til síðustu áramóta. Hann situr nú í fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans.
Þættirnir Ekon eru styrktir af Háskóla Íslands, sem styður vísindamenn til virkrar þátttöku í samfélaginu í krafti rannsókna þess og sérþekkingar.