Samkvæmt könnuninni var frekar lítil hreyfing á fylgi flokkanna frá því í lok febrúar og undir miðjan mars.
Þá varð mikil breyting og fylgi við Pírata jókst mikið, úr sextán prósentum þá, í 22 prósent. Á sama tíma fór fylgi annarra flokka að dala, hlutfallslega langmest hjá Vinstri Grænum, sem fóru úr 12 prósentum í átta.
Allt mælingartímabilið var frá 26. febrúar til 30. mars. Sjálfstæðisflokkurinn fór úr 26 prósentum í síðustu könnun í 25 %, Samfylkingin úr 17 í 16, Björt framtíð úr 13 í ellefu, Framsókn heldur sínum ellefu, en VG fer úr ellefu í tíu prósent, samkvæmt frétt RÚV.
Fylgi við ríkisstjórnina minnkar um tvö prósent úr 37 prósentum í 35.
Píratar hlutu 5,1 prósent atkvæða í Alþingiskosningunum 2013 og eiga þrjá þingmenn á Alþingi. Flokkurinn hefur í síðustu könnunum á undan Þjóðarpúlsinum (MMR og Fréttablaðinu) mælst með mest fylgi þeirra sex flokka sem sitja á Alþingi nú. Í nýjustu könnuninni mældist flokkurinn með 29,1 prósent fylgi sem myndi duga þeim til að næla í 19 þingmenn. Sjálfstæðisflokkurinn, sem ítrekað hefur mælst stærstur í fylgiskönnunum frá kosningum 2013, mældist næst stærstur eða með 23,4 prósent.
Í takt við kosningaspá
Í síðustu viku leitaði Kjarninn til Baldurs Héðinssonar, stærðfræðings, og bað hann að keyra spálíkan fyrir Alþingiskosningar byggða á síðustu könnunum sem birtar höfðu verið þá. Þær kannanir sem reiknaðar eru með og gefið vægi eru könnun Capacent sem gerð var 29. janúar til 25. febrúar, könnun Fréttablaðsins dagana 10. til 11. mars, könnun MMR dagana 13. til 18. mars og könnun Fréttablaðsins 18. til 19. mars.
Augljóst er af niðurstöðum kosningaspárinnar að Píratar eru á góðri siglingu þessa dagana. Kannanir MMR ofmátu fylgi Pírata nokkuð verulega fyrir síðustu Alþingis- og borgarstjórnarkosningar. Það gerði Fréttablaðið líka, þó ekki eins mikið.
Við gerð líkansins gat Baldur þess að það yrði áhugavert að sjá næsta Þjóðarpúls, hann myndi gefa góða vísbendingu um stöðu Pírata.