Starfshópur um leikskóla að loknu fæðingarorlofi skilaði af sér tillögum á miðvikudag. Það þarf ekki að koma nokkrum manni á óvart að þar er lagt til að stefnt verði að því að bjóða öllum börnum dvöl á leikskóla þegar þau eru yngri en nú er raunin, eða frá eins árs aldri. Til að byrja með verði börnum veitt pláss frá átján mánaða aldri. Það er auðvitað gríðarlegt hagsmunamál að börn og foreldrar hafi kost á faglegri dagvistun, ekki síður en lenging fæðingarorlofsins og breytingar á hámarksgreiðslum.
Núna er einnig að störfum starfshópur um framtíðarskipan fæðingarorlofsmála, sem Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra skipaði í lok síðasta árs. Ein ástæðan var einmitt sú að sögn ráðherrans að foreldrar hér á landi þurfi að brúa lengsta bilið frá þeim tíma sem fæðingarorlofi lýkur þar til leikskólaganga hefst. Sú ákvörðun síðustu ríkisstjórnar að lækka hámarksgreiðslur úr sjóðnum hafði líka mjög slæm áhrif, sérstaklega á töku feðra á fæðingarorlofi, sem er mikið jafnréttismál.
Þótt þessir tveir starfshópar hafi ekki fengið mjög mikla athygli þá ná þeir í sameiningu utan um nokkur af stærstu hagsmunamálum samfélagsins.
Það fylgir því auðvitað kostnaður ef taka á yngri börn inn á leikskóla, það krefst bæði húsnæðis og fleira starfsfólks, en ekki síst krefst það kannski pólitísks vilja. Sömu sögu er að segja af lengingu fæðingarorlofs og hækkun á hámarksgreiðslum.
Því staðan er þannig að ef ungt fólk á að geta hugsað sér að vera á Íslandi, eins og mikið er rætt um þessa dagana, er stór þáttur þess að því sé gert kleift að eignast börn ef það kýs svo, taka fæðingarorlof og geta svo áhyggjulaust haft börnin sín á faglegum stofnunum. Það væri nú rós í hnappagat stjórnmálamanna ef þeir gætu komið sér saman um skynsamlegar breytingar til góðs í þessum málum.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.