Kjörstaðir voru opnaðir í Grikklandi klukkan fjögur í nótt að íslenskum tíma en Grikkir kjósa í dag um hvort þeir vilji ganga að samkomulagi við kröfuhafa gríska ríkisins um frekari aðhaldsaðsgerðir í ríkisrekstri landsins í staðinn fyrir frekari fjárhagsaðstoð. Skoðanakannanir í síðustu viku bentu til þess að samkomulagið yrði samþykkt með naumindum en síðustu kannanir sem voru gerðar áður en þjóðaratkvæðagreiðslan sýndu að þjóðin virðist skiptast algjörlega jafnt í afstöðu sinni gagnvart því hvað skuli gera.
Kjörstaðir loka flestir klukkan fjögur að íslenskum tíma, þótt mögulegt sé að halda þeim opnum tveimur tímum lengur krefjist aðstæður þess. Ef þeir loka á réttum tíma er búist við að fyrstu tölur úr atkvæðagreiðslunni muni liggja fyrir um klukkan 18 í kvöld að íslenskum tíma.
Evrusamstarfið undir
Gríska ríkisstjórnin, undir forystu Alexis Tsipras forsætisráðherra, boðaði til kosninganna í júní. Tsipras hefur verið mjög iðinn við að koma fram undanfarið og hvetja fólk til að kjósa "nei". Hann segist sannfærður um að það muni styrkja stöðu hans í frekari samningsviðræðum við þrieykið svokallaða, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Evrópska Seðlabankann og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem eru helstu eigendur krafna á hendur gríska ríkinu. Hljóðið í leiðtogum Evrópusambandsins er hins vegar annað.
Þeir hafa sagt að Grikkir muni þurfa að yfirgefa evrusamstarfið kjósi gríska þjóðin gegn samkomulaginu. Því verði í raun sjálfhætt ef það verði niðurstaðan. Auk þess þykir mjög líklegt að ríkisstjórn Grikklands, undir forystu Syriza flokksins, falli verði samkomulagið samþykkt í dag.
Ásakanir um hryðjuverk og hótun um handarskurð
Yanis Vanoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, hefur einnig farið mikinn í alþjóðlegum fjölmiðlum í aðraganda kosninganna. Í gær ásakaði hann kröfuhafa landsins um hryðjuverk í viðtali við spænska blaðið El Mundo. Í viðtali við Bloomberg á fimmtudag sagði hann myndi frekar skera af sér hendina heldur en að skrifa undir samkomulag við kröfuhafa sem gerir gríska ríkinu ókleift að endurskipuleggja skuldastöðuna. Hann sagðist enn fremur myndu segja af sér ef gríska þjóðin kýs „Já“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, hefur ásakað kröfuhafa Grikkja um hryðjuverk og sagt að hann skeri frekar af sér hendina en að skrifa undir samkomulag sem hann veit að Grikkir ráða ekki við.
Í viðtalinu við El Mundo í dag sagði hann: "Það sem þeir eru að gera Grikklandi á sér nafn - hryðjuverk. Það sem Brussel og þríeykið [e. troika] vilja er að "já" vinni svo þeir geta auðmýkt Grikki".
Mikið er undir á sunnudaginn fyrir ríkisstjórn Alexis Tsipras forsætisráðherra sem gæti fallið verði samþykkt samninga við kröfuhafa niðurstaðan. Leiðtogar stærstu evruríkjanna og Evrópusambandsins hafa sagt með skýrum hætti að í raun kjósi Grikkir um áframhaldandi veru í evrusamstarfinu.
Bankar í Grikklandi hafa verið lokaðir alla vikuna og geta Grikkir ekki tekið hærri fjárhæð en 60 evrur, ríflega átta þúsund krónur, úr hraðbönkum á dag. Óvissa um framhaldið hefur leitt til óvenjulegra aðstæðna í landinu, svo ekki sé meira sagt, þar sem langar biðraðir myndast við hraðbanka og bæði launþegar og atvinnurekendur vita ekkert um framhald mála.