Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hefur boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort samþykkja skuli eða hafna nýju samkomulagi sem lánardrottnar Grikkja hafa lagt fram.
Tsipras greindi frá þessu í sjónvarpsávarpi í gríska sjónvarpinu í kvöld, skömmu eftir að hann snéri aftur til Aþenu eftir fundahöld í Brussel með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Seðlabanka Evrópu og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Tsipras sagði í ávarpinu að tillögur lánardrottnanna brytu í bága við evrópskar reglur og grundvallarréttindi til vinnu, jafnréttis og virðingar. Þær sýndu að tilgangur sumra sem að samningunum hefðu komið væri ekki að ná góðu samkomulagi fyrir alla aðila, heldur að niðurlægja heila þjóð. Í samkomulaginu fælist óbærileg krafa um niðurskurð.
Í ljósi aðstæðna muni stjórnvöld í Aþenu óska eftir nokkurra daga framlengingu á núverandi samkomulagi, sem rennur út 30. júní næstkomandi. Þjóðaratkvæðagreiðslan á að fara fram sunnudaginn 5. júlí.
Grísk stjórnvöld sögðu fyrr í kvöld að þau höfnuðu tillögum lánardrottnanna. Angela Merkel Þýskalandskanslari hafði áður hvatt eindregið til þess að grísk stjórnvöld tækju því sem hún kallaði óvenjulega rausnarlega tillögu. Samkvæmt samkomulaginu hefðu grísk stjórnvöld fengið 15,5 milljarða evra í áframhaldandi aðstoð, þar af 1,8 milljarða evra sem hefðu verið þeim aðgengilegar strax. Grikkir eiga að borga 1,5 milljarð evra til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á þriðjudaginn.