Grísk stjórnvöld, með Alexis Tsipras forsætisráðherra og leiðtoga Syriza flokksins í broddi fylkingar, hafa boðað til atkvæðagreiðslu í gríska þinginu á næstkomandi föstudag, þar sem kosið verður um hvort haldi skuli áfram með efnahagsáætlunina í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið. Áætlunin, sem felur í sér 240 milljarða evra neyðaraðstoð, stórfelldan niðurskurð ríkisreksturs og eignasölu að hálfu hins opinbera, hefur verið umdeild í Grikklandi, svo ekki sé fastar að orðið kveðið, og vann Syriza mikinn kosningasigur meðal annars út á loforð um að hætta að vinna eftir áætluninni, endurfjármagna skuldir og skilyrða endurgreiðslur við hagvaxtarþróun í landinu, og stoppa niðurskurð hjá hinu opinbera.
Samningaviðræður fjármálaráðherra Evrópusambandsins og Grikkja hafa ekki gengið vel, og hefur Evrópusambandið ekki verið tilbúið til þess að fallast á skilyrði stjórnvalda, sem vilja þó forðast það að þurfa yfirgefa evruna. Grikkir höfnuðu í dag tilboði Evrópusambandsins um að framlengja efnahagsáætlunina fyrrnefndu, og lét Tsipras hafa það eftir sér að Grikkir væru ekki að flýta sér, þrátt fyrir að áætlunin renni að óbreytt út í lok mánaðarins.
Breska ríkisútvarpið BBC, greindi frá því nú undir kvöld, að Tsipras væri að vinna að því að gríska ríkið fái lánagreiðslu til sex mánaða til þess að geta klárað viðræður við kröfuhafa sína, einkum Evrópusambandsríkin og Seðlabanka Evrópu, með það að markmiði að laga efnahagsáætlunina betur að grískum hagsmunum.