Gríska ríkisstjórnin hefur lagt til nýjan samning um neyðarlán. Samningurinn er til tveggja ára og yrði þriðji neyðarlánasamningurinn sem gerður yrði.
Samkvæmt grískum fjölmiðlum myndi þessi neyðarlánasamningur taka gildi samhliða endurskipulagningu á skuldum Grikkja. Samningurinn yrði gerður í gegnum Evrópska stöðugleikakerfið (European Stability Mechanism) og án þátttöku Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Í tilkynningu frá skrifstofu forsætisráðuneytisins segir að Grikkir séu enn við samningaborðið og leitist eftir lífvænlegri lausn með það að markmiði að halda áfram í evrusamstarfinu.
Skömmu áður en greint var frá þessu var blaðamannafundi með erlendum blaðamönnum í Aþenu frestað á síðustu stundu. Það var gert vegna þess að halda þurfti neyðarríkisstjórnarfund.
Helena Smith, blaðamaður Guardian, er í Aþenu og hefur eftir ónefndum heimildarmönnum að Alexis Tsipras forsætisráðherra fljúgi nú strax til Brussel.
Fyrir nokkrum mínútum var bréfið sem sent var til Brussel birt á Twitter, eins og sjá má hér að neðan. Þar kemur meðal annars fram að Grikkir óska eftir framlengingu á núverandi samkomulagi á meðan ákvörðun er tekin um næstu skref. Þeir óska einnig eftir því að skuldir verði endurskipulagðar og þá kemur fram að þeir ætla sér að vera komnir með aðgang að alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum eftir tvö ár.
Tsipras' letter to the #Eurogroup requesting 3rd bailout, debt restructuring. #Greece pic.twitter.com/ienUCymoVo
— Piers Scholfield (@inglesi) June 30, 2015
Jeroen Dijsselbloem, forseti Evruhópsins, staðfesti fyrir skömmu að tillögurnar hefðu borist seinni partinn í dag og að Evruhópurinn, fjármálaráðherrar evruríkjanna, muni halda símafund um þær síðar í dag, eða klukkan 5 að íslenskum tíma.