Málefni Grikkja eru allsráðandi á fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem nú fer fram í Washington. Svo virðist sem Grikkir hafi stigið eitt skref í viðbót í átt að greiðslufalli og mögulega því að þurfa að hætta í evrusamstarfinu undanfarna daga.
Greint var frá því í gær Grikkir hefðu óskað eftir því við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að endurgreiðslum á lánum þeirra í maí og júní yrði frestað. Fréttirnar voru þó ekki staðfestar af grískum yfirvöldum. Afborganir lánanna, sem Grikkir eiga að standa skil á þá, nema 2,5 milljörðum evra, sem jafngildir 364 milljörðum króna. Þessari bón Grikkja var illa tekið. Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, sagði að frestun á afborgunum myndi aðeins gera ástandið verra.
Yanis Varoufakis fjármálaráðherra mætti til Washington í gær á vorfund AGS. Þar er talið líklegt að hann gæti gert aðra tilraun til þess að fá AGS til að fresta afborgunum af lánunum, en það er ekki talið líklegt til árangurs. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur alla tíð haft það prinsipp að endursemja ekki um lán.
George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, sagði við Guardian í dag að ástandið í Grikklandi væri mesta áhyggjuefni alþjóðahagkerfisins. Stemmningin á fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væri sýnilega dapurlegri en á síðustu fundum og það sé ljóst að minnstu mistök eða misreikningar gætu auðveldlega snúið við efnahagsbatanum í Evrópu.
Þýskaland vill að stjórnvöld hætti að blekka almenning
Það að Grikkir skuli hafa beðið um þetta þykir sýna að þeir sjálfir eru ekki vissir um að hægt verði að ná samkomulagi um áframhaldandi lánveitingar frá AGS og Evrópusambandinu. Economist segir þetta dæmigerða hegðun grískra stjórnvalda, það sé aldrei hægt að vita hverju von er á frá þeim. Grísk stjórnvöld hafi breytt um stefnu innan evruhópsins og orðið uppvís að því að halda ekki trúnað, og það hafi eyðilagt trúverðugleika stjórnvalda.
Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, krafðist þess á miðvikudag að stjórnvöld í Grikklandi hættu að blekkja almenning í landinu og réðust strax í erfiðar aðhaldsaðgerðir. Lausn mála væri nefnilega algjörlega í höndum Grikklands. Forseti Seðlabanka Evrópu, Mario Draghi, talaði á svipuðum nótum og sagði það algjörlega í höndum Grikkja hversu lengi bankinn gæti haldið landinu á floti með neyðarlánum.
Áframhaldandi veiting neyðarlána til Grikklands strandar á því að samkomulag náist um það hvaða aðhaldsaðgerðir og umbætur þeir ráðast í. Um þetta hefur enn ekki verið samið. Grikkir höfðu vonast til þess að ná samkomulagi fyrir fund evruhópsins þann 24. apríl næstkomandi, en nú virðast að minnsta kosti mörg önnur ríki gera sér grein fyrir því að svo verður ekki. Grikkir eiga samkvæmt kröfu ESB að einkavæða nokkur fyrirtæki og ráðast í miklar umbætur á vinnumarkaði og lífeyriskerfinu, en hafa hingað til ekki útskýrt hvernig þeir ætla að gera það.
Þá hefur það skemmt fyrir stöðu þeirra að fyrst vöruðu þeir við því að þeir gætu orðið uppiskroppa með fjármagn í febrúar, svo í mars og nú í apríl.
Þrýstingur heima fyrir og í nágrannaríkjunum
Pólitískur þrýstingur eykst lika heima fyrir. Alekos Flambouraris, sem er ráðherra og náinn samverkamaður forsætisráðherra, ýjaði að því í sjónvarpsviðtali í vikunni að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi þátttöku í evrusamstarfinu. Líklegt er talið að svarið í slíkri atkvæðagreiðslu væri já, sem gæti gefið forsætisráðherranum Alexis Tsipras möguleika á að ýta til hliðar vinstrisinnuðustu einstaklingunum í Syriza-flokknum, sem hafa komið í veg fyrir aðhaldsaðgerðirnar.
Þá greinir Kathimerini, eitt stærsta dagblað Grikklands, frá því í dag að nágrannaríki Grikklands, þar sem útibú grískra banka eru starfandi, hafi sett mikinn þrýsting á bankanna. Seðlabankar í Albaníu, Búlgaríu, Kýpur, Rúmeníu, Serbíu, Tyrklandi og Makedóníu hafi allir gert þá kröfu á gríska banka sem starfa í ríkjunum að þeir komi algjörlega í veg fyrir að þeir geti orðið fyrir skaða vegna gríska kerfisins, ef samningaviðræðurnar skyldu ekki ganga. Dagblaðið kallar þetta sóttkví, og að hún hafi verið talin nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir að mögulegt fall Grikklands smiti út frá sér til þessara ríkja.
Þetta þykir benda enn frekar til þess að ríkin í kringum Grikkland séu að undirbúa sig undir það að ríkið fari í þrot.