Stjórnvöld í Grikklandi saka lánardrottna sína um að gæta annarlegra hagsmuna og segja þá kannski ekki vilja ná samkomulagi um neyðarlán til Grikkja. Lánardrottnarnir hafi ekki samþykkt nýjustu umbótatillögur Grikkja. Þetta höfðu fjölmiðlar eftir forsætisráðherra landsins í morgun.
Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar frá Grikkjum segir Evrópusambandið að ekki hafi slitnað upp úr viðræðum og þær haldi áfram í dag eins og áætlað hafi verið.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, er nú kominn til Brussel þar sem hann fundar með fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Seðlabanka Evrópu, og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar verður rætt um ágreiningsefni, en sagt er að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi sérstaklega miklar efasemdir um nýjustu tillögur Grikkja.
Lánardrottnar Grikkja funda nú í Brussel og Tsipras er kominn til fundarins.
Í kvöld verður haldinn fundur evruhópsins, fjármálaráðherra evruríkjanna, og búist er við því að fundurinn gæti varað í alla nótt. Reynt verður til þrautar að ná samkomulagi á fundinum svo að hægt verði að ganga frá málinu á fundi leiðtoga Evrópusambandsríkjanna allra á morgun.
Nú er innan við vika þangað til Grikkir eiga að borga 1,6 milljarð evra til baka af láni sínu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en sama dag rennur núverandi samkomulag um neyðarlánin út. Ef ekki verður búið að ná samkomulagi fyrir þann tíma lítur allt út fyrir að greiðslufall verði hjá Grikkjum með ófyrirséðum afleiðingum.