Grikkir eru reiðubúnir samþykkja öll skilyrði lánardrottna sinna með nokkrum breytingum, samkvæmt nýju bréfi sem Alexis Tsipras forsætisráðherra landsins hefur sent til lánardrottnanna. Bréfið var gert opinbert af fjölmiðlum fyrir skömmu, en það var hins vegar sent í gær. Í bréfinu kemur fram að Grikkir séu reiðubúnir að samþykkja þær tillögur sem lagðar voru fram um helgina ef þeir fá nokkrar breytingar í gegn, eins og að hafa afslátt af virðisaukaskatti á grísku eyjunum og fresta umbótum á lífeyriskerfinu, þannig að þær hefjist ekki fyrr en í október.
Hér má sjá bréfið sem Tsipras sendi til Brussel í gær.
Greek PM Alexis #Tsipras's letter to creditors via @geoterzis #Greece pic.twitter.com/Rs3Tc5p4hQ
Auglýsing
— Kathimerini English (@ekathimerini) July 1, 2015
Stjórnvöld í Grikklandi sendu hins vegar frá sér yfirlýsingu rétt í þessu þar sem þau segja að það sé ekki rétt að Grikkir vilji samþykkja að fullu tillögur lánardrottnanna.
Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, segir að samkomulagið sé hins vegar runnið út og nú þurfi að semja um nýtt. Hann segist ekki vera búinn að lesa nýjustu tillögur Grikkja og gagnrýndi stjórnvöld þar í landi fyrir að vera ótraustan samningsaðila. Það sé engin ástæða til þess að halda áfram viðræðum fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna á sunnudag.
Schäuble segir að það verði að hafa í huga að Grikkir hafi þegar fengið skuldir lækkaðar. Hann segist jafnframt finna til með grísku þjóðinni, en að hann hafi alltaf staðið við það sem samið hefði verið um og ef aðrir hefðu gert það líka væri Grikkland ekki í svona erfiðri stöðu nú.
Þrátt fyrir ummæli Schäuble stendur til að fjármálaráðherrar evruríkjanna fundi um málið í dag.
Könnun bendir til meirihluta fyrir því að hafna samkomulagi
Könnun sem birtist í dagblaðinu Efimerida ton Syntakton í morgun sýnir að 54 prósent aðspurðra ætla að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni á sunnudag. 33 prósent segjast ætla að segja já. Forsendurnar sem voru gefnar eru þær að með því að segja nei sé því hafnað að þurfa að undirgangast mikinn niðurskurð í skiptum fyrir aðstoð, en með því að segja já sé samþykkt að ráðast í niðurskurðaraðgerðir gegn því að vera áfram hluti af evrusvæðinu. Það hefur þó verið gagnrýnt að valkostirnir í atkvæðagreiðslunni séu óskýrir, og ekki sé ljóst hvaða afleiðingar hvor niðurstaða hefði.
Þá hafa fjölmiðlar greint frá því í morgun að eitt þeirra skjala sem grísk stjórnvöld hafa gert opinber, og er hluti af tillögunum sem þjóðin þarf að taka afstöðu til, var ekki þýtt rétt yfir á grísku. Á einum stað gleymdist að bæta orðinu ekki inn í setningu. Skjalið snýst um greiningu á sjálfbærni skulda Grikkja og þar eru settar fram þrjár sviðsmyndir. Í fyrstu tveimur sviðsmyndum eru ekki sögð nein sjálfbærnivandamál, en ekki-ið gleymdist á öðrum staðnum.