Fjármálaráðherrar evruríkjanna, evruhópurinn svokallaði, eru nú að hefja fund um framtíð Grikklands. Mikillar bjartsýni gætti í morgun um að samkomulag um áframhaldandi neyðarlán til þeirra tækist í dag, en fjármálaráðherrar evruríkjanna hafa dempað þær væntingar verulega með ummælum sínum á leið inn á fundinn.
Dagurinn í dag er dagur hinna fjölmörgu funda. Í morgun fundaði stjórn Seðlabanka Evrópu um stöðuna í Grikklandi, svo fundaði Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, með Christine Lagarde, framkvæmdastjóra AGS, Mario Draghi, bankastjóra Seðlabanka Evrópu, Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB og Jeroen Dijsselbloem, forseta evruhópsins. Þau ræddu um nýjar tillögur að umbótum sem Grikkir lögðu fram seint í gærkvöldi. Þessum tillögum var almennt vel tekið að sögn fjölmiðla og þær sagðar vera í áttina að því sem lánardrottnar vilja. Svo hefur komið í ljós að Grikkir sendu frá sér vitlaust skjal og réttu umbótatillögurnar komu mjög seint fram. Raunar segir Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, að tillögurnar séu ekkert breyttar frá því sem var fyrir helgina. Án almennilegra tillagna frá Grikkjum verði ekkert hægt að gera.
Alexander Stubb, fjármálaráðherra Finnlands, var einn fyrsti ráðherrann sem talaði við fjölmiðla á leið sinni inn á fund evruhópsins, en hann sagðist hafa „mjög litlar væntingar“ til dagsins í dag. Undir það tók Michael Noonan, fjármálaráðherra Írlands. Hann sagði að ruglingurinn hjá Grikkjum, að senda fyrst vitlaust umbótaskjal til lánardrottna sinna, hafi valdið því að evruhópurinn hafi ekki getað undirbúið fund sinn vel. Því hefði hann mjög litlar væntingar til fundarins. „Þetta segir mikið um ástandið í Aþenu en ekkert um ástandið annars staðar í Evrópu,“ sagði hann um þessi mistök Grikkja.
Það fór vel á með Alexis Tsipras og Jean-Claude Juncker fyrir fund þeirra í Brussel í morgun.
Síðasti fundur dagsins er svo í kvöld, klukkan fimm að íslenskum tíma, en þá munu leiðtogar allra Evrópusambandsríkjanna halda neyðarfund.
Vegna allra þessara fundarhalda voru uppi vonir um að samkomulagi um áframhaldandi neyðarlán til Grikkja næðist í dag, en ýmsir leiðtogar hafa dempað þær vonir í samtölum við fjölmiðla í morgun. Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði við þýska fjölmiðla í morgun að enn væri nokkurra daga vinna eftir áður en hægt yrði að taka ákvarðanir um framhaldið. Jean-Claude Juncker sagði áður en fundahöldin í dag hófust að búið væri að ná framförum yfir helgina en „við erum ekki komin á áfangastað enn. Ég veit ekki hvort við náum samkomulagi í dag.“