Grísk stjórnvöld vilja nú nota sjóði almannatryggingakerfisins til þess að geta borgað opinberum starfsmönnum laun og lífeyri fyrir þennan mánuð.
Í nýlegu viðtali viðurkenndi Yanis Varoufakis fjármálaráðherra að ríkið sæi fram á erfiðleika vegna þess að skattheimta í janúar var ekki eins mikil og gert var ráð fyrir. Hann sagði að til væru peningar til að borga laun og lífeyri opinberra starfsmanna, en að annað þyrfti að koma í ljós.
Financial Times segir að stjórnvöld þrýsti nú á ýmsar stofnanir að færa fé sitt inn í sameiginlegan sjóð undir stjórn Seðlabanka Grikklands. Þannig gætu stjórnvöld haft meiri stjórn á fjármálum ríkisins. Gríska ríkið þarf að greiða 1,2 milljarð evra til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir 20. mars og svo þarf ríkið 1,5 milljarð evra til þess að geta borgað laun og lífeyri.
Talið er að ríkisstofnanir eigi allt í allt tvo milljarða evra í varasjóði, sem væri nóg til að koma ríkinu í gegnum næstu mánuði á meðan verið er að semja um áframhald á aðstoð frá Evrópusambandinu, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Með því að nota þetta fé er hins vegar búið að setja almannatryggingakerfið í hættu ef ekki tekst að semja. Á meðal þess sem sett yrði í hættu eru atvinnuleysisbætur til þeirra fjölmörgu sem eru án vinnu í landinu.
Financial Times hefur eftir Theodoros Ambatzoglou, sem er yfirmaður vinnumálastofnunar landsins, að það að færa sjóði sé of áhættusamt skref að taka.
Hóta að gera þýskar eignir upptækar vegna nasista
Þá hefur dómsmálaráðherrann Nikos Paraskevopoulos hótað því að gera þýskar eignir upptækar til þess að greiða bætur vegna stríðsglæpa nasista í Grikklandi í seinni heimstyrjöldinni. Grískir fjölmiðlar hafa eftir honum að hann sé reiðubúinn að virkja dómsúrskurð frá árinu 2000 þar sem hæstiréttur Grikklands dæmdi afkomendum 218 einstaklinga sem voru myrtir af nasistum í Distomo árið 1944 bætur.
Alexis Tsipras forsætisráðherra sagði einnig í gær að ríkisstjórnin hefði fullan hug á því að sækja stríðsbætur til Þjóðverja