Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, bíður þess nú að fá svar frá kröfuhafaráði ríkissjóðs landsins en hann lagði fram tilboð til þeirra á föstudag, til þess að taka afstöðu til. Tilboðið, sem ekki hefur verið gert opinbert, felur í sér breytingu frá þeirri áætlun sem unnið hefur verið eftir til þessa, en samt munu skattar hækka enn meira, eignir ríkisins seldar og sérstök gjöld sett á bæði alkahól og sígarettur, að því er breska ríkisútvarpið BBC greinir frá.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fjármálaráðherrar Evrópusambandsríkja eru nú með tilboð grískra stjórnvalda til skoðunar, en niðurstaða verður að liggja fyrir innan skamms því fyrirséð er að ríkissjóður Grikklands getur ekki staðið við skuldbindingar sínar í apríl, ef ekki verður samþykkt að lána til Grikklands á þeim forsendum sem stjórnvöld, með Syriza flokkinn í broddi fylkingar, vilja.
Eftir að Syriza vann kosningasigur í Grikklandi og komst til valda, meðal annars á grundvelli loforða um að hætta að starfa eftir ríkisfjármálaáætlun í samstarfi við AGS og ESB, hefur illa gengið að móta næstu skref. Fundirnir nú um helgina, eru taldir ráða úrslitum um það hvort stjórnvöld í Grikklandi nái fram breytingatillögum sínum eða ekki. Ef ekki verður fallist á að taka meira tillit til þess sem grísk stjórnvöld vilja, þá er lítið annað að gera en að halda áfram að starfa eftir þeirri áætlun sem liggur fyrir, en hún miðast við að endurgreiða 240 milljarða evra skuldir ríkissjóðs Grikklands, með miklum fórnum og hagræðingu.