Stjórnvöld í Grikklandi, með Syriza flokkinn í broddi fylkingar, ákváðu í dag að banna atvinnumannafótbolta í Grikklandi vegna síendurtekinna óláta á fótboltaleikjum í landinu, þar sem bullur hafa vaðið uppi með ofbeldi og skemmdarverkum.
Upp úr sauð á leik tveggja af stærstu knattspyrnufélögum Grikklands, Panathinaikos og Olympíakos, síðastliðinn sunnudag og blönduðust bæði knattspyrnustjórar og stjórnarmenn félaganna í deilur fyrir og eftir leik.
Stjórnvöld í Grikklandi hafa í nokkur skipti reynt að stöðva ólæti á fótboltaleikjum, meðal annars í tvígang í vetur, með tímabundnum bönnum og peningasektum. Fyrst í september og síðan í nóvember.
Ný ríkisstjórn, sem Syriza hefur leitt frá því eftir kosningar í síðasta mánuði, hét því að taka þetta mál föstum tökum, og óhætt er að segja að hún geri það. Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC um málið er allt óvíst hvenær atvinnumannafótbolti í landinu fer aftur af stað, en bannið nær til þriggja efstu deilda í landinu.
Talið er líklegt að lagasetning, sem á að hemja ólætin, sé í bígerð og að atvinnumannafótbolti muni hefjast aftur innan tíðar. Viðmælandi BBC lýsir miklum efasemdum um þessar ákvarðanir stjórnvalda og segir að þetta muni engu breyta. Ólæti á fótboltaleikjum í Grikklandi eigi sér 30 til 40 ára sögu, og nær útilokað sé að koma í veg fyrir þau með pólitískum aðgerðum og lagasetningu.
https://www.youtube.com/watch?v=TP1i6knkSFc