Gríska kauphöllin opnar í dag í fyrsta sinn í fimm vikur. Hún hefur verið lokuð frá því að fjármagnshöft voru sett á í landinu og tilkynnt var um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um björgunarpakka sem Evrópusambandið, Seðlabanki Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bauð Grikklandi gegn hörðum skilyrðum. Grikkir sögðu nei í atkvæðagreiðslunni og í kjölfarið samdi ríkisstjórn landsins um nýjan björgunarpakka með rýmri, en samt sem áður afar hörðum, skilyrðum.
Sérfræðingar eru nokkuð sammála um að verð á hlutabréfum muni hrynja þegar kauphöllin verður opnuð. Það muni endurspegla þann viðbótar skaða sem skráð fyrirtæki í Grikklandi hafa orðið fyrir á þeim tíma sem kauphöllin hefur verið lokuð.
Á vef BBC er rætt við grískan sjóðsstjóra sem er að búa sig undir allt að 20 prósent lækkun á verði hlutabréfa.
Alls ekki komnir úr vandræðum
Þrátt fyrir að Grikkir hafi samþykkt björgunarpakka kröfuhafa sinna þá ríkir enn gríðarleg óvissa í landinu. Forsætisráðherrann Alexis Tsipras er að glima við mikla andstöðu innan flokks síns, Syriza, vegna samkomulagsins, sem felur í sér mjög sársaukafullar niðurskurðar- og endurskipulagningaraðgerðir á grískum ríkisfjármálum og að gríska ríkið verður að einkavæða tíu sinnum fleiri ríkiseignir en Grikkir hafa einkavætt hingað til, samkvæmt Business Insider.
Síðastliðinn miðvikudag var stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins svo upplýst um það að sjóðurinn geti ekki tekið þátt í þriðju neyðarlánaveitingunni til Grikklands. Ástæðan er sú að skuldir Grikkja eru svo háar og þeir hafa ekki sýnt fram á það hingað til að þeir geti framfylgt áætlunum um umbætur.
Sjóðurinn mun taka þátt í viðræðum um neyðarlánapakkann, sem nú fara fram í Aþenu, en hann mun ekki ákveða hvort hann tekur þátt í nýjum aðgerðapakka fyrr en eftir einhverja mánuði og mögulega ekki fyrr en á næsta ári.