Gríska ríkisstjórnin samþykkti á neyðarfundi undir kvöld drög að samkomulagi við kröfuhafa sína. The Guardian greinir frá því að þar sé gert ráð fyrir frekari 13 milljarða evra niðurskurði í ríkisfjármálunum, en að Grikkir muni óska eftir 50 milljarða evra neyðarláni. Hér er hægt að fylgjast með umfjöllun Guardian.
Ljóst er að niðurskurðurinn mun koma hart niður á hagkerfi landsins, sem hefur verið í mikilli kreppu um árabil, og þá hefur lokun gríska bankakerfisins ekki hjálpað til. Þá er talið að niðurskurðurinn í ríkisfjármálunum verði svo blóðugur og muni koma svo hart niður á þegnum Grikklands að til greina komi að veita landinu frekari fjárhagsaðstoð í mannúðarskyni.
Samkvæmt heimildum The Guardian er stefnt að því að kynna samkomulagið fyrir kröfuhöfum gríska ríkisins í kvöld, en fresturinn sem Grikkjum var gefinn til að koma fram með raunhæfa áætlun og samkomulag rennur út á næstu klukkustundum.
Þá hefur grískum þingmönnum verið sagt að vera í viðbragðsstöðu, því að öllum líkindum muni gríska þingið þurfa að koma saman á morgun til að samþykkja samkomulagspakkann við kröfuhafana.
Samkvæmt áætlun verða tæknileg atriði samningsdraganna yfirfarin af Alþjóðagjaldeyrissjóðinum (AGS), Evrópusambandinu og Seðlabanka Evrópu á föstudag, fjármálaráðherrar evruríkjanna munu yfirfara samninginn á laugardag og leiðtogar evruríkjanna funda á sunnudag.