Gríska þingið samþykkti í morgun samkomulag við Evrópusambandið um neyðarlán með kvöðum um aðhaldsrekstur í ríkisfjármálum. Neyðarlánið var samþykkt á þinginu eftir langan fund sem stóð í alla nótt. Þar mætti Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, meðal annars andstöðu eigin flokksmanna í flokki sínum Syriza. Í umfjöllun á vef The Guardian segir að rökræður næturinnar hafi á tíðum verið fjarstæðukenndar og hávaðasamar.
Vegna andstöðu um fjörutíu þingmanna Syriza, Yannis Varoufakis fyrrum fjármálaráðherra landsins þeirra á meðal, þurfti Tsipras að treysta á stuðning stjórnarandstöðuflokka. Eftir mikið karp og fundarhöld var samkomulagið loks samþykkt örugglega, með 222 atkvæðum gegn 64.
Drög að neyðarláninu þarnast nú undirskriftar fjármálaráðherra evruríkjanna, sem funda vegna málsins síðar í dag, föstudag. Auk þess krefst samkomulagið samþykkis nokkurra þjóðþinga, meðal annars í Þýskalandi, stærsta kröfuhafa gríska ríkisins.
Lánapakkinn á að bjarga Grikkjum frá greiðslufalli og líklegri útgöngu úr evrusamstarfinu í kjölfarið. Neyðarlánið hljóðar upp á um 85 milljarða evra. Það þarf að koma í tæka tíð fyrir 20. ágúst, þegar 3,2 milljarða evra lánagreiðsla frá Seðlabanka Evrópu fellur á gjalddaga. Neyðarláninu fylgja miklar kvaðir fyrir Grikki, þeim er gert að skera niður í útgjöldum ríkisins og mikið eftirlit verður haft með að Grikkir haldi áætlun.