Þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, fjallaði um trú og viðbrögð við umræðu um hana undir liðnum störf þingsins í dag.
„Guð er ekki til. Það er ekki til nein yfirnáttúruleg vera sem hlustar á bænir eða skipuleggur einhvers konar refsingu eða umbun eftir dauðann miðað við hvernig fólk hugsaði eða hagaði sér á þessari jörð.
Það er mjög auðvelt að skilja af hverju við höldum að það sé til einhver slík vera sem skapaði himin og jörð úr engu eða úr líkama Ýmis eða eitthvað svoleiðis, því að í árþúsundir hafði mannveran ekki getu til að sannreyna hugmyndir um tilvist heimsins og allar hinar mismunandi sögur sem fólk bjó til um það hvernig heimurinn virkaði,“ sagði hann við upphaf ræðu sinnar.
Sáraeinfalt að misnota trú til að búa til stjórnkerfi
Björn Leví sagði að augljóst væri hvað gerðist í kjölfar þess að „fólk trúir sögum um það hvernig heimurinn varð til“.
„Það er nefnilega sáraeinfalt að misnota þá trú til að búa til stjórnkerfi og ráðstafa valdi með tilvísun í æðri máttarvöld. Til að friðþægja þennan guð eða annan þá þarf bænir, gjafir eða fórnir, annars endurfæðist þú sem óæðri lífvera í næsta lífi, það kemur plága eða þú kvelst að eilífu í helvíti,“ sagði hann.
Þá hefði hann orðið var við það að ef hann segði þessa einföldu orð – „guð er ekki til“ – þá fyndist fólki vegið að trú sinni. Að það gerði einhvern veginn lítið úr skoðunum þeirra.
„Mér finnst það mjög merkilegt því að á sama tíma virðist fólk síður móðgast yfir því ef einhver er annarrar trúarbragðaskoðunar. Það fólk trúir bara á annan guð. Það er einhvern veginn síður móðgandi, kannski af því að þau eru föst í sömu keppni, að veðja á að einhver yfirnáttúruleg vera útvegi þeim passa í eftirlífið og keppnin snúist bara um hver veðjar á rétta yfirnáttúrlega veru, en það á auðvitað bara við ef um eingyðistrú er að ræða.
Ef það geta verið fleiri yfirnáttúrulegar verur sem allar eru með sitt himnaríki og helvíti þá er þetta auðvitað bara samkeppnismarkaður um hver býður best að þínu mati og þá er öðrum svo sem alveg frjálst að vera með aðra skoðun á því en þú, fyrir utan öll stríðin og hörmungarnar og þaðan af verra. En að guð sé ekki til, sú staðreynd er móðgandi. Er það ekki merkilegt?“ spurði hann að lokum.