Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrum velferðarráðherra, er látinn. Guðbjartur varð 65 ára. Banamein hans var krabbamein. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Guðbjartur ræddi opinskátt um veikindi sín við Kastljós í september síðastliðnum en hann hafði þá tilkynnt að hann myndi taka sér leyfi frá þingstörfum vegna þeirra.
Guðbjartur fæddist 4. júní 1950 á Akranesi. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands 1971 og starfaði sem kennari í fjöldamörg ár. Guðbjartur var skólastjóri Grundarskóla á Akranesi 1981-2007, allt þar til hann tók sæti á Alþingi árið 2007. Guðbjartur sat í bæjarstjórn Akraness 1986-1998.
Hann var velferðarráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna á árunum 2011 til 2013.
Þann 7. september síðastliðinn greindi Guðbjartur frá því á Facebook-síðu sinni að hann myndi ekki mæta á þingsetningardaginn, sem var þann dag.
Ólína Þorvarðadóttir tók sæti Guðbjarts á þingi.