Guðbjörg Matthíasdóttir, eigandi Ísfélags Vestmannaeyja, Íslensk/Ameríska og hluthafi í Morgunblaðinu, svo eitthvað sé nefnt, segir þörf vera á því að stórefla samgöngur í landinu. Þær séu lífæð í framleiðslufyrirtækjum. „Greiðar og tryggar samgöngur eru lífæð allra framleiðslufyrirtækja og ég tel að við þurfum að fara í átak í samgöngumálum um allt land,“ sagði Guðbjörg í samtali við vef Félagskvenna í atvinnurekstri, FKA. Guðbjörg var heiðruð í dag, og hlaut FKA viðurkenninguna 2015. Viðurkenningarnar voru afhentar á degi FKA í Hörpu, en auk Guðbjargar hlaut María Rúnarsdóttir, stofnandi Mint Solutions, hvatningarviðurkenningu FKA og þakkarviðurkenninguna hlaut Guðný Guðjónsdóttir, eigandi Mokka-Kaffi.
Á vef FKA segir að Guðbjörg eigi heiður skilinn fyrir framlag sitt til atvinnumála frá því að hún tók við rekstri Ísfélags Vestmannaeyja árið 2000, en á því ári lést maður hennar, Sigurður Einarsson lögfræðingur. Hún er sjálf uppalin í Reykjavík, en fluttist til Vestmannaeyja með manni sínum árið 1976.
„Árið 2000 var ár áfalla í lífi Guðbjargar, fjölskyldu hennar og sögu Ísfélagsins. Í október það ár féll Sigurður frá – og tveimur mánuðum síðar brann nýtt og glæsilegt frystihús félagsins. Að sögn Guðbjargar kom samt aldrei annað til greina en að halda ótrauð áfram. „Allra vegna“ segir hún. „Bæði fjölskyldunnar og bæjarfélagsins vegna. Þetta var einn af fjölmennustu vinnustöðunum í Vestmannaeyjum og ekki annað í boði en að taka við kyndlinum og reka fyrirtækið áfram“. Það hefur hún gert allar götur síðan með glæsibrag; dugnaði og elju. Sjálf þakkar hún velgengnina ekki síst því hversu heppin hún er með samstarfsfólk – en þeir sem til þekkja eru sammála um að hennar eiginleikar; skynsemi, áhugi og innsæi – skipti ekki minna máli. Ísfélag Vestmannaeyja er nú með starfsemi bæði í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn á Langanesi og er burðarás í báðum bæjarfélögum. Hjá félaginu starfa 250-300 manns. Er þá ótalin öll sú starfsemi sem Guðbjörg kemur að í öðrum félögum," segir á vef FKA þar sem viðurkenningarnar eru til umsagnar.