Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður bæjarstjórnar í Hafnarfirði og bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar, hefur tilkynnt flokknum að hún sækist eftir embætti formanns hans á ársfundi sem haldinn verður 5. september næstkomandi. Fjögur framboð hafa borist til embættis stjórnarformanns Bjartrar framtíðar. Þau eru frá Guðlaugu, sem sækist þá eftir öðru hvoru embættinu, Karólínu Helgu Símonardóttur, Matthíasi Frey Matthíassyni og Preben Péturssyni. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Bjartrar framtíðar sem birt var í dag.
Athygli vekur að Margrét Marteinsdóttir, sem var kjörin stjórnarformaður Bjartrar framtíðar í janúar síðastliðnum, hefur ekki tilkynnt að hún sækist áfram eftir að gegna því starfi.
Allir skráðir félagar í Bjartri framtíð geta boðið sig fram í embættin.
Mikil ólga síðustu vikur
Nokkur óánægja hefur verið með gang mála innan Bjartrar framtíðar undanfarin misseri, og gagnrýndi Heiða Kristín Helgadóttir, annar stofnandi flokksins og fyrrum stjórnarformaður hans, Guðmund Steingrímsson, formann flokksins, vegna slæmrar stöðu flokksins í viðtali við Kjarnann í byrjun ágúst, en flokkurinn mælist nú með aðeins 4,4 prósent fylgi.
Miðað við það fylgi myndi Björt framtíð ekki ná inn manni í komandi kosningum. Flokkurinn mældist með um 20 prósent fylgi í könnunum í fyrrahaust.
Í kjölfar gagnrýni Heiðu Kristínar hefur orðið mikið rót innan Bjartrar framtíðar. Guðmundur hefur tilkynnt að hann muni hætta sem formaður og Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, hefur sömuleiðis sagt að hann muni láta af embætti. Guðmundur ætlar að leggja fram tillögu á ársfundinum um að ábyrgðarstöður innan flokksins muni róterast.
Fjölmargir hafa verið orðaðir við formannsframboð. Einn þeirra er Heiða Kristín, en hún tilkynnti í gær að hún myndi ekki bjóða sig fram. Þess í stað hvatti hún Brynhildi Pétursdóttur, þingmann flokksins, til framboðs. Brynhildur hefur ekki sagt af eða á um hvort hún muni láta slag standa. Sömu sögu er að segja af Óttarri Proppé, þingmanni Bjartrar framtíðar.
Ársfundur Bjartar framtíðar fer fram laugardaginn 5. september í Reykjanesbæ, nánar tiltekið í Officera klúbbnum á Ásbrú. Samkvæmt dagskrá stendur kosning formanns og stjórnarformanns yfir frá klukkan 14 til 16:45.