Formannsslagur verður í Sjálfstæðisflokknum, stærsta flokki landsins, á landsfundi hans um næstu helgi. Guðlaugur Þór Þórðarson tilkynnti í hádeginu að hann ætli að bjóða sig fram gegn Bjarna Benediktssyni, sitjandi formanni.
„Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að vera stærsti flokkurinn, hann á alltaf að vera langstærsti flokkurinn,“ sagði Guðaugur Þór þegar hann ávarpaði stuðningsfólk sitt í Valhöll í hádeginu þegar hann tilkynnti um framboðið. Guðlaugur Þór, sem verður 55 ára í desember, hefur setið á þingi frá árinu 2003 og gegnir nú embætti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Bjarni hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins frá 2009 og hefur í tvígang fengið mótframboð, árið 2010 þegar Pétur Blöndal bauð sig fram og ári seinna þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir bauð sig fram gegn honum.
Bjarni hefur gefið það út að tapi hann fyrir Guðlaugi Þór í formannskjörinu ætli hann að hætta í stjórnmálum. „Ef að mínum tíma sem formanni lýkur í þessu kjöri þá er mínum tíma í stjórnmálum bara lokið. Það er ekkert flóknara en það,“ sagði Bjarni á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Trúir því að flokkurinn geti gert betur
„Ég einarðlega trúi því að við getum gert betur,“ sagði Guðlaugur Þór í Silfrinu á RÚV í morgun og lagði áherslu á að Sjálfstæðisflokkinn verði aftur sú breiðfylking sem hún hefur verið. Friðjón Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var einnig gestur í Silfrinu og sagði framboð Guðlaugs „tilefni til ákveðins óvinafagnaðar“ og fór ekki leynt með það að hann styður sitjandi formann.
Framboð hefur legið í loftinu en það er líklega eitt verst geymda leyndarmál íslenskra stjórnmála að Guðlaugur Þór hefur lengi haft metnað til þess að verða formaður Sjálfstæðisflokksins. Síðasta þriðjudag, 25. október, bárust meldingar frá fólki innan Sjálfstæðisflokksins til fjölmiðla um að Guðlaugur Þór ætlaði í formannsframboð. Þær meldingar bárust helst frá fólki sem styður hina fylkinguna í flokknum og fólk í kringum Guðlaug Þór kannaðist ekki við að slík ákvörðun hefði verið tekin.
Morgunblaðið birti svo frétt daginn eftir, 26. október, sem skrifuð er af Andrési Magnússyni, ritstjórnarfulltrúa blaðsins sem hefur mikil tengsl við Sjálfstæðisflokkinn. Í fréttinni sagði að „undanfarna daga hafa verið miklir orðasveimir um hugsanlegt framboð Guðlaugs, sem m.a. hefur verið tengt umdeildu vali á landsfundarfulltrúum í stöku félagi.“
Guðlaugur Þór komst hjá því að mestu svara fyrirspurnum um formannsframboð í vikunni en í samtali við Vísi á fimmtudag beindi hann athyglinni að fylgi Sjálfstæðisflokksins í formannstíð Bjarna og sagði marga í flokknum hafa miklar áhyggjur af stöðu hans.
Átök tveggja fylkinga
Nú þegar það liggur fyrir að hann ætlar að sækjast eftir formannsembættinu er ljóst að tvær fylkingar innan flokksins munu takast á, fylkingar sem hafa átt í innbyrðis átökum um ítök og áhrif árum saman án þess að hafa barist á um æðstu embættin í flokknum.
Um er að ræða þá fylkingu sem fylgir Guðlaugi Þór að málum og þá sem hverfist í kringum Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2009.
Fylking Guðlaugs Þórs hefur tekist hart á við hina þegar valið hefur verið á framboðslista flokksins í síðustu tveimur borgarstjórnarkosningum og í prófkjörinu fyrir síðustu þingkosningar. Færa má rök fyrir því að fylking Guðlaugs Þór hafi sigrað í tveimur af þeim lotum, fyrir kosningarnar 2018 og 2021, og haft ívið betur í þeirri þriðju, þegar prófkjör ákvað lista flokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.
Hingað til hefur Guðlaugur Þór valið að sýna þolinmæði í formennskumetnaði sínum og sagt út á við að hann styðji forystuna eins og hún er. Taktíkin hefur gengið út á að reyna að bíða formannstíð Bjarna Benediktssonar af sér.
En þegar Bjarni tilkynnti í ágúst að hann ætlaði að sækjast eftir áframhaldandi formennsku þurfti Guðlaugur Þór að endurmeta aðferðafræði sína. Það hefur hann nú gert og mun hann etja kappi við Bjarna um embætti formanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins sem fer fram næstu helgi.
Landsfundurinn sá fyrsti frá því í mars 2018. Tvö þúsund landsfundarfulltrúar, víða að á landinu, eiga sæti á fundinum og hafa kosningarétt í kjöri til formanns.