Andstaða er við það innan fjárlaganefndar að ríkið taki við þriggja milljarða króna lífeyrisskuldbindingum RÚV og að hætt verði við að lækka útvarpsgjaldið. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ef ríkið tæki yfir skuldbindingarnar og að hætt verði við lækkun á útvarpsgjaldi væri það "ansi groddaraleg eingreiðsla upp á fjögur þúsund milljónir króna".
Í rekstar- og aðgerðaráætlun um rekstur RÚV, sem Morgunblaðið greindi frá í morgun, er ein forsenda þess að hann komist í jafnvægi án verulegrar skerðingar á þjónustu sú að ríkið yfirtaki lífeyrisskuldbindingar fyrirtækisins. Þær eru um þrír milljarðar króna. Verði þetta að veruleika, ásamt því að RÚV selji lóðir fyrir 1,4 milljarða króna, munu langtímaskuldir RÚV lækka úr 4,4 milljörðum króna í 402 milljónir króna, eða um fjögur þúsund milljónir króna. Áætlunin er unnin af RÚV í samráði við starfshóp þriggja ráðuneyta. Þetta kemur fram í greinarferð fjárlaganefndar Alþingis um fjárhag RÚV þar sem áætlunin er til umfjöllunar. Fjármálaráðuneytið hefur þegar samþykkt áætlunina.
Í áætluninni er gert ráð fyrir að tap upp á 33 milljónir króna verði á rekstri RÚV á yfirstandandi ári. Hagnaður verði hins vegar af rekstrinum rekstrarárið 2015-2016 upp á 1.540 milljónir króna, að mestu vegna lóðasölu upp á 1,4 milljarða króna. Samkvæmt áætluninni verður rekstur RÚV heilt yfir í jafnvægi á því sex ára tímabili sem fjallað er um í henni.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, fer með málefni RÚV. Hann sagði í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að engar ákvarðanir hafi verið teknar af hálfu stjórnvalda um að taka yfir lífeyrisskuldbindingar RÚV. Hann hefur sjálfur ekki viljað taka afstöðu til málsins strax.