Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, segir fréttastofu Ríkisútvarpsins hafa sakað sig um rangfærslur og blekkingar varðandi fjármál Ríkisútvarpsins. Hann vill að fréttastofan leiðrétti frétt um hann með áberandi hætti. Þetta kemur fram í aðsendri grein Guðlaugs Þórs í Morgunblaðinu í dag.
Guðlaugur Þór segir að fréttastofan hafi, í frétt sem fór í loftið síðastliðinn föstudag, sagt: „Vegna orða Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, um að fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi ranglega fullyrt að útvarpsgjaldið hafi aldrei runnið óskert til stofnunarinnar og talna sem hann hefur nefnt í því sambandi er rétt að minna á að innheimta útvarpsgjalds hófst í ársbyrjun 2009. Fram að því var afnotagjald innheimt. Útvarpsgjaldið hefur aldrei runnið óskert til Ríkisútvarpsins.“
Þingmaðurinn hafnar þessu og segir að kapp virðist hafa borið fréttastofuna ofurliði í þessu tilfelli og að þröngir sérhagsmunir hafi ráðið för í fréttflutningi í stað staðreynda. „Það er alvarlegt þegar fréttastofa Ríkisútvarpsins - sem starfar í skjóli sérstakra laga og á kostnað skattgreiðenda - skuli saka þingmann um blekkingar og jafnvel beinar rangfærslur. Ætla má að sérstaklega sé vandað til verka á ritstjórnum fjölmiðils sem fer fram með slíkar fullyrðingar.“
Hann segir fleiri hafa lagst á árar með fréttastofunni við að halda þessu fram, jafnt í þingsal sem í fjölmiðlum, og að þar fari stjórnarandstöðuþingmenn í Samfylkingu og Vinstri grænum fremstir í flokki.
Rifjar upp bréf Steingríms og Katrínar
Guðlaugur Þór rifjar loks upp bréf sem Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir, sem þá voru bæði ráðherrar, rituðu til stjórnar Ríkisútvarpsins 4. febrúar 2011 vegna árskýrslu Ríkisútvarpsins ohf. Fyrir fjárlagaárið 2009-2010. Í grein Guðlaugs Þórs segir að „þar gagnrýndi stjórn hins opinbera hlutafélags að fjárveitingar Alþingis til stofnunarinnar fylgi ekki heimtum af útvarpsgjaldi. Er því haldið fram að með því sé rekstrarformið afskræmt og sé „til þess fallið að skerða fjárhagslegt og ritstjórnarlegt sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart ríkjandi stjórnvöldum“.
Þessum fullyrðingum mótmæla ráðherrarnir einum rómi og það harkalega enda ekki í „samræmi við staðreyndir mála“. Vakin er athygli á því að í ársbyrjun 2009 hafi verið „tekinn upp almennur skattur, útvarpsgjald“ í stað afnotagjalds og síðan segir:
„Skatturinn er ekki markaður RÚV eins og afnotagjaldið var enda annars eðlis. Var m.a. horft til þess að þessi nýi tekjustofn væri óviss og sveiflukenndur, sérstaklega í ljósi aðstæðna eftir efnahagshrunið þar sem mikil óvissa var um hversu margir einstaklingar og lögaðilar yrðu tekjuskattsskyldir og myndu þar með greiða útvarpsgjaldið.“
Í bréfinu gagnrýna ráðherrar Vinstri grænna Ríkisútvarpið fyrir að hafa ekki staðið við gerða samninga auk þess sem tölulegar staðreyndir um fjárhagslega aðstoð ríkissjóðs á árunum 2006 til 2009 eru dregnar fram. Þá segir orðrétt:
„Á sama tíma hefur komið í ljós að árin 2009 og 2010 voru innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi 160 m.kr. lægri en framlag ríkisins til RÚV voru, eða 6.573 m.kr. á móti 6.733 m.kr. Ef tekin eru með þau útgjöld sem hlutust af því þegar ríkissjóður lagði nýtt eigið fé inn í RÚV á árinu 2009 eru útgjöld ríkissjóðs 723 m.kr. umfram innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi.““
Í niðurlagi greinarinnar segir Guðlaugur Þór: „ Nú er bara að bíða og vona að fréttastofa Ríkisútvarpsins leiðrétti frétt sína síðastliðinn föstudag með áberandi hætti. Ábyrgir og metnaðarfullir fjölmiðlar hafa einnig beðist velvirðingar af minna tilefni.“