Unnsteinn Jóhannsson hefur verið ráðinn nýr aðstoðarmaður Guðmundar Steingrímssonar, formanns Bjartrar framtíðar. Hann mun einnig starfa sem upplýsingafulltrúi Bjartrar framtíðar. Unnsteinn hefur störf um næstu mánaðarmót. Árni Múli Jónasson, sem gegnt hefur starfi aðstoðarmanns formanns Bjartrar framtíðar, tekur við starfi framkvæmdastjóra Þroskahjálpar um næstu mánaðarmót. Áni Múli hafði gegnt starfi pólitísks ráðgjafa og aðstoðarmanns formanns flokksins frá því í byrjun janúar.
Í tilkynningu frá Bjartri framtíð segir að Unnsteinn sé menntaður KaosPilot og hafi stundað nám sitt í Hollandi og Danmörku. "Hann hefur verið virkur þátttakandi í ýmsum frjálsum félagasamtökum, þar á meðal Kaffibarþjónafélaginu, Skátunum og Samtökunum 78. Unnsteinn hefur unnið sem verkefnastjóri fyrir Skátahreyfinguna og lætur nú af störfum sem framkvæmdastjóri Landssambands æskulýðsfélaga. Unnsteinn sat í 12. sæti Bjartrar framtíðar í Reykjavík. Er hann varamaður í Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar og situr í starfshópi um málefni hinsegin fólks í Velferðaráðuneytinu fyrir hönd Bjartrar framtíðar.
Björt framtíð hefur verið mikið til umfjöllunar að undanförnu í kjölfar þess að fylgi flokksins hefur hríðfallið. Í könnun sem MMR birti í síðustu viku sögðust einungis 4,4 prósent kjósenda ætla að kjósa flokkinn. Miðað við það fylgi myndi Björt framtíð ekki ná inn manni í komandi kosningum. Í nýjustu könnun Gallup mælist fylgi Bjartrar framtíðar fimm prósent. Flokkurinn mældist með um 20 prósent fylgi í könnunum í fyrrahaust.
Heiða Kristín Helgadóttir, annar stofnenda flokksins og fyrrum stjórnarformaður hans, gagnrýni Guðmund Steingrímsson, formann Bjartrar framtíðar, og aðra í forystu flokksins opinberlega í síðustu viku. Í kjölfarið sagðist hún opin fyrir því að sækjast eftir formannsembættinu ef vilji væri fyrir því hjá flokksmönnum. Guðmundur tilkynnti í gær að hann hefði engan áhuga á formannsslag og myndi leggja fram tillögu um að æðstu embætti flokksins myndu róterast. Þá tillögu ætlar hann að leggja fram á ársfundi Bjartrar framtíðar í byrjun september. Verði sú tillaga samþykkt mun starf formanns og þingflokksformanns róterast á milli sex þingmanna Bjartrar framtíðar en aðrir gegna starfi stjórnarformanns.